138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:13]
Horfa

Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var vel við hæfi að hæstv. ráðherra teldi upp þau atriði sem snúa að endurskoðun laga um fiskveiðar í þessari stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þetta eru sex atriði. Fyrstu fimm atriðin sem ráðherrann las upp, þ.e. stuðla að vernd fiskstofna, stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar, treysta atvinnu, efla byggð, skapa sátt o.s.frv., eru almenn atriði sem er mjög eðlilegt að fari til nefndarinnar og að nefndin starfi innan þess ramma. Svo kemur sjötta atriðið og þar kemur algjörlega kristalklár ákvörðun sem er allt annars eðlis en fyrstu fimm atriðin sem ég taldi hér upp. Það er svona:

„6. leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.“

Hér er ekki lengur verið að ræða um neina sátt, ekki nein almenn markmið, hér er bara ákveðið af ríkisstjórninni að það eigi að komast að þeirri niðurstöðu að það eigi að innkalla allar aflaheimildir á 20 árum.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra er það reyndur stjórnmálamaður að hann gerir sér fyllilega grein fyrir mun á þessum atriðum. Hér er um að ræða fullkomin frávik og breytingu á þeim grunni sem lagður hefur verið af öllum flokkum sem áttu fulltrúa á Alþingi á sínum tíma, þ.e. Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki sem síðan urðu að Samfylkingu, Sjálfstæðisflokki sem hefur stutt þetta og Framsóknarflokki líka. Nú verð ég að játa að ég veit reyndar ekki um afstöðu Hreyfingarinnar, ég þekki hana ekki.

Það er grundvallarmunur á þeim atriðum sem hæstv. ráðherra taldi upp. Hvað varðar síðan samfélagslega ábyrgð við útgerðina í landinu er hún heilmikil og ég veit að við hæstv. ráðherra erum sammála um það. Ég veit líka að margir útgerðarmenn hafa staðið mjög myndarlega að þeirri ábyrgð sinni, en ég veit líka því miður dæmi annars og ég veit að hæstv. ráðherra þekkir líka dæmi þess þar sem menn hafa ekki gert það, það er eins og gengur í öðrum atvinnuvegi á Íslandi. Sumir standa sig vel og standa sína plikt, og aðrir ekki. Það hefur ekkert að gera með það mál sem við ræðum hér, frú forseti.