138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:42]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tala ekki í nafni smábátasjómanna eða annarra. Ég tala í mínu nafni og er í þessum ræðustóli að tjá mínar skoðanir og þarf ekki að leita til útvegsmanna eða annarra hagsmunaaðila til að óska leyfis fyrir því hvað ég megi segja í þessum ræðustól. Ég tala frjálst. Ég tala heldur ekki í nafni íslenskrar þjóðar. Ég tala kannski í nafni þess meiri hluta sem kaus núverandi ríkisstjórnarflokka sem buðu fram í síðustu kosningum loforð um breytingu á núverandi kvótakerfi.

Vissulega þurfum við tekjur í þjóðarbúið, eins og hv. þingmaður bendir á. Hann spyr hvort engin óvissa hafi hlotist af áformum um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Vitanlega hljóta spurningar að vakna þegar boðuð er breyting á fiskveiðistjórnarkerfinu, en ég spyr hv. þingmann á móti: Telur hann að skuldastaða greinarinnar hafi ekkert að gera með þá óvissu sem fram undan er? Telur hann að ótti manna við hrun í sjávarútvegi hafi nákvæmlega ekkert að gera með þá geigvænlegu skuldastöðu sem greinin stendur frammi fyrir og þá veðsetningu sem orðin er í þessari atvinnugrein?