138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða líklega eitthvert mesta hagsmunamál þjóðarinnar á síðari tímum og líklega eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar í dag, því ef við höfum einhvern tímann þurft á því að halda að hafa frið og sátt og enga óvissu um undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar þá er það nú. Ég hef velt því fyrir mér eftir að svokölluð fyrningarleið var boðuð, hvort það sé þá líka markmið ríkisstjórnarinnar, bara ekki búið að segja frá því enn þá, að fyrna heimildir eða rétt manna til að stunda landbúnað, jarðrækt, mjólkurframleiðslu eða framleiðslu á lambakjöti, svo dæmi sé tekið. Á ekki í rauninni það sama við? Er það næsta skref hjá hæstv. ríkisstjórn, frú forseti, að ganga þann veg að fara í innköllun á slíku? Það besta fyrir íslenska þjóð í dag væri að sjálfsögðu að eyða þeirri óvissu sem ríkisstjórnin hefur nú skapað varðandi sjávarútveginn, með því að afturkalla yfirlýsingu þá sem er í stjórnarsáttmálanum um fyrningu aflaheimilda.

Sú tillaga sem við leggjum hér fram er til þess fallin að reyna að hvetja ríkisvaldið og ríkisstjórnina til að taka skref til þess að við getum horft fram á við og starfað áfram í þeirri atvinnugrein sem skiptir okkur mestu og til þess að fjárfestingar verði í atvinnugreininni, því þrátt fyrir þau orð sem hér hafa fallið varðandi skuldastöðu sjávarútvegsins, þá hafa menn tækifæri og vilja til að fjárfesta í honum og það er beinlínis nauðsynlegt að áfram verði fjárfest í sjávarútvegi, t.d. varðandi fiskiskipaflotann, tækniþróun og annað.

Fyrning aflaheimilda er til þess fallin að skapa óvissu og draga úr vilja til að ráðast í nauðsynlegar umbætur í sjávarútvegi, þ.e. rekstur fyrirtækja og tækniþróun og annað. Það er mjög mikill og stór ábyrgðarhluti að setja svona fram, ekki síst vegna þess að það virðist algjörlega óljóst hvernig á að hrinda þessu í framkvæmd. Það virðist algjörlega óljóst og vanhugsað eða ekkert búið að hugsa um hverjar afleiðingarnar mögulega verða. Hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur kom fram hér rétt áðan, að það væri í rauninni ekki hennar að útfæra fyrningarleiðina. Ég hélt það væri einmitt ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna sem kasta slíku fram, að útfæra og koma með útfærsluna. Hver annar á að útfæra? Eru það þeir sem eru í greininni í dag? Á að láta þá útfæra fyrningarleiðina? Er búið að stilla þeim upp við byssuhlaupið og segja: Nú skuluð þið bara útfæra, annars hljótið þið verra af? Hvert er markmiðið með þessu?

Hv. þm. Illugi Gunnarsson velti því hér upp áðan hvort kerfið væri réttlátt. Það má alltaf spyrja sig þeirrar spurningar: Er eitthvert kerfi réttlátt? Er kerfið í landbúnaðinum réttlátt? Er kerfið sem við höfum varðandi nýtingu náttúruauðlinda í jörðu réttlátt? Er atvinnuleysisbótakerfið réttlátt? Hvaða kerfi er yfir það hafið eða hvaða samþykktir stjórnmálamanna eða ríkisstjórnar eru einhvern tímann yfir allan vafa hafnar um að þær séu réttlátar? Við eigum að sjálfsögðu að vera reiðubúin, sem við erum, að skoða ábendingar sem koma varðandi sjávarútvegskerfið eins og allt annað. Ég hygg að allir eða velflestir þingmenn, frú forseti, séu reiðubúnir til þess að leggja í slíka vinnu.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra nefndi í ræðu sinni samfélagslega ábyrgð sjávarútvegsfyrirtækja. Ég held að það yrði einmitt mjög forvitnilegt ef það yrði skoðað og hreinlega gerðar rannsóknir á því hvað sjávarútvegsfyrirtæki leggja til samfélagslegra verkefna á Íslandi. Samfélagsleg ábyrgð þeirra er nefnilega mikil. En það fer vitanlega eftir því hvernig menn teygja og toga þetta hugtak hver niðurstaðan verður.

Ímynd greinarinnar kom líka fyrir í orðum hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, þá var hann að velta því upp að það þyrfti að bæta ímynd greinarinnar. Ég held ég geti verið sammála hæstv. ráðherra með það, frú forseti, að ímynd þessarar greinar okkar er kolröng; ósanngjörn og röng. Röng ímynd er dregin upp af spunameisturum þeim sem nú vilja innkalla veiðiheimildir, fyrna veiðiheimildir, og láta líta svo út að bara bófar og bandítar séu í þessari grein. Það er vitanlega ekki þannig. Þetta er uppsláttur. Þetta er popúlismi.

Ég verð, frú forseti, að koma aðeins inn á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Hér er skipuð fjölmenn nefnd til að vinna að endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins, eða þeirra laga sem við vinnum eftir. Hún vinnur í fyrsta lagi í því umhverfi að yfir hangir þessi svokallaða fyrningarleið. Það verður að segjast eins og er að það hefur vissulega mótað og haft veruleg áhrif á umræðu í þessari nefnd að þetta hangir yfir okkur. Það verður líka að segjast eins og er að því miður höfum við kannski frekar lítið komist áfram í vinnu nefndarinnar, vegna þess að þetta hangir yfir.

Hitt er svo líka, sem ég verð að nefna hér, að mér finnast þau vinnubrögð ekki í lagi sem nú eru viðhöfð, að koma hér með frumvarp um breytingar á því kerfi sem við eigum að fjalla um og endurskoða, að koma með það hér inn í þingið, á meðan á þessari vinnu stendur. Ég held að það sé eitthvað það mikilvægasta sem við getum gert — ef við erum að meina það í alvöru að endurskoða þessa hluti og hafa um þá sátt — að ástunda ekki þessi vinnubrögð. Að ástunda ekki þau vinnubrögð að koma með umtalsverðar breytingar á þeim lögum eða umhverfi sem okkur er falið að endurskoða ofan í þá vinnu sem verið er að vinna. Það er þá betra að bíða með það og sjá hvort nefndin skili af sér ásættanlegri niðurstöðu fyrir ríkisstjórnina. Ég hugsa að ef sú leið væri farin að hætta við eða lýsa því yfir að fyrningin yrði ekki farin með þeim hætti sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum, og að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn mundi gefa það loforð hér til Alþingis eða til þingmanna eða þeirra sem í nefndinni sitja, að fleiri frumvörp muni ekki koma fram ofan í starf nefndarinnar, þá hygg ég að hægt verði að vinna þessa vinnu í þokkalegri sátt.

En ég segi það hreint út fyrir mig, sitjandi í þessari nefnd, að ég hef hugsað það vandlega hvort einhver leikur sé í gangi, hvort verið sé að plata okkur með þessari nefnd. Ég hlýt að afla mér upplýsinga um það hjá hæstv. ráðherra núna á næstunni hvort svo sé, ég hlýt að endurmeta veru mína í nefndinni út frá því, því vitanlega er ekki hægt að búa við slíkt.

Það hafa komið hér upp ýmsar spurningar varðandi þessa fyrningu. Alveg ljóst er og það þekkja hv. þingmenn að fjölmörg fyrirtæki í sjávarútveginum, hvort sem það eru nú útgerðarfyrirtækin, fiskvinnslurnar eða fyrirtæki sem bjóða þjónustu, vöru og þjónustu til þessara fyrirtækja, halda að sér höndum, vegna þess að þetta vofir yfir.

Það er alveg rétt að tekjur sjávarútvegsins eru ágætar núna. Það er hátt verð á afurðunum, sem betur fer, því þjóðarbúinu veitir heldur ekkert af því að hafa hér góðar tekjur. Það þarf að vera þannig áfram og það þarf að vera þannig um margra ára skeið. Því held ég að mjög skynsamlegt væri að ríkisstjórnin drægi til baka, lýsti því yfir að hugmyndir ríkisstjórnarflokkanna um fyrningu yrðu dregnar til baka. Það þýðir ekki að segja að það yrði tímabundið, heldur bara draga það til baka til þess að skapa það svigrúm sem þarf til að byggja upp íslenskt atvinnu- og þjóðlíf á ný. Sjávarútvegurinn er í dag mikilvægasta atvinnugrein okkar. Það eru líka iðnaðurinn og ferðaþjónustan. Við verðum að skapa þessum greinum þau skilyrði að þær geti áfram staðið undir þeim væntingum og kröfum sem við gerum hér á Íslandi. Það gerum við ekki með háttalagi hæstv. ríkisstjórnar, því miður.

Það kann vel að vera að þeir tímar komi síðar að þeir flokkar sem hafa þessar hugmyndir geti með einhverju móti hrint þeim í framkvæmd, en tími til sigra á þessu sviði er ekki núna. Nú þarf að skapa tekjur og það þarf að gera í umhverfi sem er þokkaleg sátt um. (Forseti hringir.)