138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd.

[13:32]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Nú háttar svo til að á fundi fjárlaganefndar í gærkvöldi tók meiri hluti fjárlaganefndar út álit sitt um svokallað Icesave-mál í andstöðu við stjórnarandstöðuna. Á þessum fundi óskaði ég eftir því að nefndin settist aðeins á rökstóla um þau efni sem við höfðum óskað eftir að kæmu til nefndarinnar til umræðu og unnin voru að beiðni hennar. Þar vísa ég til þeirra álita sem við óskuðum eftir frá efnahags- og skattanefnd. Þannig háttar þar til að fjögur mismunandi álit koma úr þeirri nefnd, ekkert samhljóða þannig að það er engin meirihlutaniðurstaða í efnahags- og skattanefnd varðandi þetta mál. Og þó ekki væri nema fyrir það eitt, hefði það gefið fullt tilefni fyrir fjárlaganefnd sem óskaði — ég ítreka — óskaði eftir þessu áliti að setjast aðeins á rökstóla um innihaldið í þeim álitum sem óskað var eftir. Það var því miður ekki gert.

Enn fremur óskaði ég eftir því í ljósi síðustu ummæla í fjölmiðlum, sem höfð voru eftir fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að hún yrði kölluð fyrir nefndina til þess m.a. að ræða þau ummæli sem höfð hafa verið eftir henni opinberlega í fjölmiðlum, að Íslendingar hefðu gengið til samninganna eins og sakamenn. Það er ekki af neinni illmennsku sem þessi beiðni er sett fram, langt því frá, heldur þvert á móti af þeirri einföldu ástæðu að grundvallaratriðið varðandi samningsgerðina eru hin svonefndu Brussel-viðmið, hin umsömdu viðmið sem svo háttar til að fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, mælti fyrir þingsályktun um. Hún var samþykkt á Alþingi 5. desember sl. og er grundvallaratriði í þessu máli þar sem ætlast er til að tekin séu mið af hinum fordæmalausu (Forseti hringir.) aðstæðum sem Íslendingar eru lentir í. Þess vegna óska ég eftir því að hv. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, gefi þinginu skýringar sínar á því að þessar óskir voru ekki virtar.