138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd.

[13:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er spurt hvers vegna Icesave-málið hafi verið tekið úr fjárlaganefnd í gær og að ekki hafi verið orðið við óskum um frekari umræðu. Ég gerði grein fyrir ástæðunni í fjárlaganefnd í gær. Ég taldi að málið væri fullreifað og þær beiðnir sem komu fram mundu ekki bæta neinu við það. Við ræddum mjög ítarlega þessi Brussel-viðmið í sumar, hvernig þeim væri fyrir komið. Við gerum grein fyrir því í nefndaráliti sem væntanlega kemur fyrir þingið í dag frá meiri hluta nefndarinnar að þeim sé með ákveðnum hætti komið fyrir í nýja frumvarpinu og þeim samningum sem þar voru gerðir. Var vitað að afstaða langflestra nefndarmanna í fjárlaganefnd, allra flokkanna, a.m.k. fulltrúa þeirra, lá fyrir. Þeir höfðu tjáð sig um afstöðu sína gagnvart frumvarpinu. Áður en við ræddum málið eða komumst að niðurstöðu taldi ég að það þjónaði ekki tilgangi fyrir málið né vinnuna í fjárlaganefnd að lengja þann tíma sem málið væri í umræðu þar.

Við vorum búin að fá fjóra mjög langa og mikla fundi þar sem við kölluðum til þá aðila sem við töldum að þyrftu að koma að málinu og skoða hvernig búið væri um þær breytingar sem orðið hafa frá því að lögin voru samþykkt við lok sumars og var farið yfir það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu og rætt við þá sem staðið höfðu í samningagerðinni. Það var rætt við slitastjórnir og skilanefndir og við lögfræðinga sem gert höfðu athugasemdir við málið og að fengnum öllum þessum upplýsingum taldi ég að málið væri þannig búið að hægt væri að taka afstöðu til þess. Meginniðurstaða meiri hluta fjárlaganefndar var að um málið væri jafnvel eða betur búið en var við afgreiðsluna í lok sumars. Þess vegna var lagt til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt.