138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd.

[13:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er tvennt sem greinir Icesave-málið frá öðrum málum sem komið hafa fyrir þingið. Í fyrsta lagi er það mjög stórt í sniðum og mikilvægt af þeim sökum að það fái vandaða og ítarlega meðferð. Í öðru lagi er það frábrugðið ýmsum öðrum málum að það hefur fengið ítarlega meðferð, ekki bara innan veggja Alþingis heldur í þjóðfélaginu almennt þannig að þingheimi eru málavextir vel kunnir. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerir nokkuð úr því að komið hafi fleiri en eitt álit frá meiri hluta í efnahags- og skattanefnd. Mér finnst það ekkert ámælisvert nema síður sé en ég skil afstöðu hv. þingmanns. Hann er í flokki sem heitir Sjálfstæðisflokkurinn. Þar á bæ hafa menn haft þann hátt á að leggja allan þingflokkinn undir pólitískt straujárn, heitt, og strauja þangað til út kemur ein skoðun. (Gripið fram í.) Þetta hefur verið vinnulagið hjá Sjálfstæðisflokknum á undangengnum tveimur áratugum (Gripið fram í.) og þekki ég mjög vel til þessara vinnubragða eftir að hafa verið hálfan annan áratug á þingi. Mér kemur því ekkert á óvart (Gripið fram í: Jæja?) að hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni skuli líka það illa (Gripið fram í.) og finnast það undarleg vinnubrögð þegar leyfðar eru mismunandi skoðanir og mismunandi áherslur í stjórnarmeirihlutanum. (Gripið fram í.) Það er ekki bara leyft heldur leyfum við okkur að hafa uppi mismunandi áherslur ef okkur þykir ástæða til. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)