138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd.

[13:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að verja Sjálfstæðisflokkinn og vinnubrögð hans í gegnum tíðina. En ef Vinstri grænir ætla sér að taka upp sömu vinnubrögð og hér var lýst af síðasta ræðumanni er Alþingi Íslendinga í vanda statt vegna þess að það dylst engum að sá minni hluti sem var gegn Icesave-frumvarpinu hjá Vinstri grænum hefur nú verið svínbeygður til að samþykkja málið, því miður.

Hv. formaður fjárlaganefndar kom upp áðan og sagði að málið hefði verið fullreifað. Ég velti fyrir mér eins og aðrir hafa gert hér: Af hverju báðum við um álit frá efnahags- og skattanefnd ef ekki stóð til að fara yfir það álit í fjárlaganefnd og kanna hvað menn hefðu þar að segja? Það var ekkert meirihlutaálit úr efnahags- og skattanefnd heldur fjögur minnihlutaálit. Maður veltir líka fyrir sér af hverju málið var ekki fullrætt í fjárlaganefnd í gær. Ég kallaði eftir afstöðu einstakra þingmanna og þá sögðu menn að málið hefði verið rætt í sumar. Það höfðu hvorki meira né minna en tveir þingmenn komið að málinu, þar á meðal núverandi varaformaður fjárlaganefndar sem sendi þau skilaboð utan af sjó snemma sumars að við ættum að hætta þessu karpi og samþykkja Icesave-samninginn eins og hann var. Þá voru hvorki meira né minna en auðlindir að veði og margt annað. Ég óska eftir því að hv. þm. Björn Valur Gíslason komi upp í ræðustól og lýsi afstöðu sinni (Forseti hringir.) vegna þess að hún kom ekki fram í gær.