138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu.

[14:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Mér var eitthvað svo mikið niðri fyrir um þau tækifæri sem liggja innan lands og í rannsóknum að ég komst ekki að svörunum en það er langt í frá að ég vilji víkja mér undan umræðunni.

Hv. þingmaður spyr hvað líði tillögum sem hann flutti um eitt heilbrigðisþjónustusvæði á Norðurlöndum. Því er til að svara að settur var á fót sameiginlegur vinnuhópur sem honum mun vera kunnugt um en svo var einnig haldin ráðstefna í Reykjavík 17. mars sl. um tækifæri og hindranir í norrænni samvinnu á sviði heilbrigðisþjónustu. Það var forveri minn, hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem þá stjórnaði heilbrigðisráðuneytinu. (Gripið fram í.)

Umræðan hefur, frú forseti, snúist ansi mikið um væntanlega tilskipun Evrópusambandsins um rétt fólks til að leita sér lækninga yfir landamæri sem jafnframt mundi þá opna fyrir möguleika á að meðhöndla erlenda sjúklinga hér á landi. Það er reiknað með að slík tilskipun líti jafnvel dagsins ljós innan tveggja ára. Því er það að þær umræður sem hófust að frumkvæði hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um sameiginlegt þjónustusvæði á Norðurlöndum hafa þróast í átt til tvíhliða viðræðna milli Íslands og Færeyja, Íslands og Grænlands, Íslands og Svíþjóðar og Íslands og Noregs. Hér hefur verið nefnt nokkuð af því sem í pípunum er. Menn þekkja frá síðustu helgi umræðuna um 1–2 sjúkraflug á mánuði til Grænlands og að grænlenskur ráðherra er væntanlegur hingað um næstu mánaðamót til að reyna að semja um þjónustu við 40–50 sjúklinga til viðbótar. Ég vil nefna að samstarfssamningur við Færeyinga bíður nú undirritunar og var tilkynnt í morgun að hann væri tilbúinn þannig að þarna eru líka ansi mörg tækifæri í boði. Það er umframgeta í íslenskum heilbrigðisstofnunum, þar er góður aðbúnaður, vel menntað og hæft starfsfólk og það er mikilvægt á þessum tímum niðurskurðar að vera einmitt vakandi fyrir sóknarfærum í heilbrigðisþjónustu (Forseti hringir.) til að efla og nýta betur fjármuni, mannafla og fasteignir sem til eru og verja störfin sem þar eru. (Forseti hringir.)

Ég þakka þessa góðu umræðu og mun læra af henni, frú forseti, að skipuleggja ræðu mína með öðrum hætti.