138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við getum auðvitað velt því fyrir okkur hvort það væri líklegt að kjararáð færi í úrskurði sem yrðu til hækkunar á næsta ári. Mér finnst það ekki vera aðalatriði málsins heldur einfaldlega hitt: Er eitthvað að því yfir höfuð að ganga með skýrum hætti frá því hvernig þetta verði á árinu 2010, standi vilji manna til þess að þessir tekjuhæstu embættismenn sem kjararáð fjallar um leggi sitt af mörkum og deili kjörum með öðrum þar sem mjög víða hafa orðið lækkanir á háum launum? Menn hafa gripið til þess víða, bæði á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera. Það er auðvitað reynt að gera það þannig að föst umsamin laun og kauptaxtar séu varin en viðbótargreiðslur og annað slíkt tekið niður. Mjög margir hafa sjálfviljugir tekið á sig einhliða launalækkanir, þar á meðal, ef ég veit rétt, forseti lýðveldisins. Ég veit að á fjölmennum vinnustöðum og stórum fyrirtækjum hafa ýmsir stjórnendur gengið á undan með góðu fordæmi og lækkað laun sín til að leggja sitt af mörkum og sýna vilja til þátttöku í þessu. Ég verð að segja að almennt hef ég ekki orðið var við neitt annað en að menn hafi tekið því vel, líka sá hópur sem hér á í hlut, að leggja sitt af mörkum. Það eru líka aðrar efnahagslegar aðstæður og annar efnahagslegur veruleiki sem við stöndum frammi fyrir hér á Íslandi. Við erum ekki að semja um kaup og kjör í landinu á grundvelli einhvers ímyndaðs ríkidæmis eins og var hér 2006–2007 og aldrei voru innstæður fyrir. Þennan veruleika verðum við að horfast í augu við þannig að það er kannski nær að kalla þetta bara aðlögun í átt að hinum efnahagslega raunveruleika Íslands á árinu 2009 og 2010 en lækkun á launum sem kannski voru aldrei innstæður fyrir.