138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé nú ekki röksemd og það væri ekki heppileg uppákoma ef málin tækju einhverja aðra og óvænta stefnu í störfum kjararáðs en þá sem er vilji löggjafans að gildi um kjör þessara manna og menn yrðu þá að fara að grípa inn í eftir að slíkt væri orðið. Þá held ég að allt mæli nú með þeirri aðferð sem hér er lögð upp, að ganga bara frá þessu og hafa þetta á hreinu.

Ég endurtek það sem ég sagði: Ég er alveg sannfærður um að gagnvart kjararáði er þetta miklu þægilegri og traustari farvegur fyrir málið. Þá er bara frá því gengið (Gripið fram í.) og kjararáð er ekki sett í neinn vanda hvað það varðar að túlka vilja löggjafans í þessum efnum. Það er ekki skilið eftir í lausu lofti hvað eigi að taka við eftir árið 2009 með því ganga bara frá því nú. (EyH: … bara leggja niður kjararáð.) Við skulum hafa það í huga að búið er að færa undir kjararáð á þessu ári fjölmarga nýja embættismenn og forstjóra opinberra hlutafélaga og fleiri slíkra aðila. (EyH: Lýðskrum.) Kjararáð vinnur það verk og hefur að undanförnu verið að taka fyrir þá hópa sem eftir standa, eins og skrifstofustjóra í ráðuneytum og aðra slíka, og er að samræma og lækka þessi laun, sérstaklega þá toppa sem stóðu upp úr í ríkiskerfinu eins og forstöðumenn í opinberum hlutafélögum. Það hefur verið sett ákveðin viðmiðun í loftið þannig að löggjafinn hefur gefið mjög skýra leiðsögn um það hvernig menn vilja taka á þessari launaþróun og í hvaða ramma menn vilja setja hana vegna þeirra atburða sem hér hafa gerst. Það er enginn árekstur í því gagnvart því lögbundna hlutverki að öðru leyti sem kjararáð hefur með höndum við eðlilegar aðstæður, ekki nokkur. Hv. alþingismenn verða að muna að það er alltaf Alþingi sjálft sem gengur að lokum frá þessum málum og ákveður með lögum hvernig þessu skuli skipað, annaðhvort ákveður það launin sjálft, eins og einu sinni var, eða felur einhverjum það hlutverk með lögum og með leiðsögn. Þannig er um þetta búið núna. Það má í raun og veru líta á það sem lögbundin stjórnvaldsfyrirmæli að gengið sé frá (Forseti hringir.) þessu svona.