138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Ég verð að viðurkenna það, frú forseti, að ég hef miklar áhyggjur af birtuskilyrðum í núverandi ríkisstjórn. Það er nú svo að hérna stendur 2. minni hluti efnahags- og skattanefndar um Icesave-málið og bendir á að í nóvember 2008 hafi skuldahlutfall upp á 240% verið augljóslega óviðráðanlegt, en núna er hins vegar mjög athyglisvert í ljósi þess að íslenska ríkið gæti að sjálfsögðu ekki ábyrgst lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu ef þessi skuldaþolmörk færu yfir þessi mörk, að þeir eru allt í einu bara komnir upp og segja að það sé allt í lagi og ráðum algjörlega við 310%, það sé vel viðráðanlegt.

Ég mundi bara vilja leggja til, fyrst formaður efnahags- og skattanefndar tekur svona vel í þessar ábendingar hjá okkur, að nefndin skoði kannski einmitt þessa hugmynd hvort það þurfi að fara í gagngerar breytingar á starfsháttum kjararáðs og jafnvel leggja það niður, miðað við það hvernig ríkisstjórnin hefur verið að haga sér gagnvart kjararáði, og við tökum bara umræðuna hér árlega um það hvaða launalækkanir eða launahækkanir við teljum ásættanlegar. Ég mundi gjarnan vilja sjá ráðuneytin vera til jafnmikillar fyrirmyndar (Forseti hringir.) og ýmsar stofnanir og þar á meðal Alþingi í sambandi við niðurskurð, því að það er alveg (Forseti hringir.) fáránlegt að sjá þær prósentutölur sem eru að koma frá ráðuneytunum sjálfum í samanburði við t.d. Alþingi og ýmsar stofnanir.