138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:10]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Margar góðar ábendingar og spurningar komu fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem ég næ væntanlega ekki að svara í stuttu andsvari en kem þá að þeim í minni seinni ræðu.

Vegna inngangs hennar og umræðu í byrjun langar mig að víkja að þeirri umfjöllun að við erum að leggja fram áætlanir um að friðlýsa 14 svæði og sitjum svo uppi með tvö eða þrjú í lok tímabils. Þetta var rætt ágætlega og reifað í sumar og af þeim sökum setti ég í gang þessa vinnu hjá umhverfisráðuneytinu í samstarfi við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun. Niðurstaða þeirrar vinnu er að það þarf, eins og þingmaðurinn benti á, að styrkja mjög og efla fræðslumikilvægi náttúruverndar og möguleika sem geta falist í henni almennt fyrir lífsgæði, byggða- og atvinnuþróun, fræðslu og ég tala ekki um fjárhagslegan ábata. Sú umræða er í raun og veru ófullburða í samfélagsumræðunni. Menn segja gjarnan: Við verðum að nýta þetta svæði, eins og það að friðlýsa sé ekki nýting. Það er vissulega ráðstöfun lands að ráðstafa því til friðlýsingar, með þeim kostum sem því fylgir.

Ég hef líka óskað eftir því og stofnanirnar hafa sett upp plan til að búa til ákveðið og skilgreint ferli við friðlýsingu svæðanna þar sem greining á möguleikum svæðisins er mjög ítarleg og leitað er eftir sérfræðiráðgjöf úr héraði. Við vitum það og þekkjum sem höfum komið að þessu verkefni eins og öðrum að þetta verður að vera samstarfsverkefni heimamanna og sérfræðinga „að sunnan“, það er afar mikilvægt. Ég get haft um þetta lengri ræðu hvað (Forseti hringir.) varðar samráð við landeigendur og hagsmunaaðila o.s.frv. en í ráðuneytinu hefur verið unnin tiltölulega ítarleg vinna og ég hef miklar væntingar til þeirrar niðurstöðu.