138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

friðlýsing Skjálfandafljóts.

44. mál
[22:13]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þá afstöðu mína sem kom fram bæði í ræðu minni og í andsvari við hv. þm. Þuríði Backman varðandi þær friðlýsingar sem við ræðum. Eins og ég nefndi gerði náttúruverndaráætlun 2004–2008 ráð fyrir 13 svæðum sem yrðu friðlýst, einungis tvö náðu þeim áfanga og önnur eru í vinnslu en Vatnajökulsþjóðgarður kom inn á þessum tíma og er kominn inn þann í pakka.

Nú liggur þessi nýja tillaga fyrir sem vissulega gerir þó ekki ráð fyrir þessu svæði sem um ræðir í þingsályktunartillögunni en engu að síður er hugsunin sú að bæta við 12 svæðum þar. Þegar ég skoðaði fyrri þingsályktun um náttúruverndaráætlunina kom í ljós, og það er raunar mitt mat, að framkvæmdin við þá friðlýsingu sem áform voru uppi um gekk svona illa fyrst og fremst vegna þess hvernig samráðið var um þá friðlýsingu sem var stefnt að.

Ég er þeirrar skoðunar að efla þurfi samráð ef menn vilja og horfa þannig til hluta að ná fram árangri í þeim áformum sem sett eru fram. Svo getum við deilt um hvort það sé rétt eða rangt að friðlýsa þennan staðinn, þessa vistgerðina eða þessa tegund dýra o.s.frv. En meginatriðið er að regluverkið, vinnulagið við þessa reglusetningu alla er í mínum huga þess eðlis að það þarf að taka það til endurskoðunar.