138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

fjárhagsleg endurskipulagning rekstrarhæfra fyrirtækja.

[14:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt sem fram hefur komið í umræðunni að þegar Alþingi tók á þessum málum, einkum í sumar, var góð samstaða um þau markmið sem vinna bæri eftir í þessum efnum. Það voru markmið sem menn hafa nefnt hérna, eins og gagnsæi, jafnræði og síðan samkeppnissjónarmið, auk þess sem að sjálfsögðu þarf að jafnaði að huga að fjárhagslegum hagsmunum ríkisins, en gagnvart viðskiptalífinu skiptir gríðarlega miklu máli að það sé ljóst að jafnræði ríki, samkeppnissjónarmið séu virt og gagnsæi sé fyrir hendi.

Ég tel að enn skorti talsvert á að þessi markmið séu komin til framkvæmda. Ég ætla ekkert að áfellast einn eða neinn fyrir það, ábyrgðin á framkvæmd þeirrar lagasetningar sem er ákveðin á Alþingi liggur í höndum framkvæmdarvaldsins, í höndum ríkisstjórnarinnar, og í þessu tilviki hæstv. fjármálaráðherra fyrst og fremst. Hins vegar ætla ég ekkert að draga dul á það að hér er um gríðarlega erfitt og flókið verkefni að ræða, það er enginn vafi á því, og verkefni sem kannski enginn okkar vildi hafa í höndunum.

Ég legg áherslu á það að hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að tryggja, eftir því sem kostur er, að þau markmið sem við sameinuðumst um í sumar komist almennilega til framkvæmda þannig að ljóst sé að það kerfi sem við höfum byggt upp að þessu leyti með Bankasýslu, með stjórnum bankanna og öðru þess háttar fari að virka með þeim hætti (Forseti hringir.) sem það á að gera til að draga úr þeirri tortryggni og þeim áhyggjum sem ég tek undir að (Forseti hringir.) þingmenn heyra af þessu máli hvarvetna sem þeir koma.