138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

fjárhagsleg endurskipulagning rekstrarhæfra fyrirtækja.

[14:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Með endurreisn bankakerfisins gafst einstakt tækifæri til að reisa nýtt Ísland úr rústum þess gamla, kasta fyrir róða því úrelta kunningjasamfélagi sem reið íslensku efnahagslífi að fullu og gera gangskör að því að koma á eðlilegri samkeppni á fjölmörgum sviðum.

Á fundi viðskiptanefndar með fulltrúum bankanna var upplýst að þar eru engar samræmdar reglur, eftirlitið er ekki skýrt, lagaramminn er ekki skýr, gagnsæi er ekki tryggt og hagsmunir bankanna fara oft gegn samkeppnissjónarmiðum. Því blasir við hið nýja Ísland norrænu velferðarstjórnarinnar sem byggist á leynd, pukri, baktjaldamakki og mismunun.

Í nýjustu skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðuna á Íslandi kemur fram að mjög mikilvægt er að setja ramma utan um endurskipulagningu skulda. Mjög hátt hlutfall fyrirtækja er í erfiðleikum, mjög skuldsett og með hátt hlutfall erlendra skulda. Í skýrslunni kemur líka fram að styrking krónunnar muni jafnvel ekki hjálpa til í mörgum tilvikum. Í þessu ástandi eru auknar líkur á að illa stödd fyrirtæki smiti út frá sér þannig að heilbrigð og lífvænleg fyrirtæki lendi í erfiðleikum vegna viðskipta við þessi fyrirtæki, að stjórnendur losi sig við eignir og fasteignir lækki í verði vegna nauðungarsölu sem leiðir til enn frekari verðlækkana.

Mats Josefsson, sérlegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í endurreisn bankanna, kvartar undan hægagangi, bankarnir kvarta undan skorti á leiðsögn og fyrirtækjaeigendur og starfsmenn kvarta undan því að fá enga úrlausn sinna mála. Ráðherrar eru einfaldlega ósammála þessu og virðast telja að allt sé í besta lagi. Helst eru þeir á því að segja upp samningum við óþæga ráðgjafa sem ganga ekki í takt.

Það er lágmarkskrafa að við þær aðstæður sem nú ríkja verði langtímahagsmunir þjóðarinnar hafðir að leiðarljósi við endurskipulagningu efnahagslífsins en ekki fjárhagslegir skammtímahagsmunir. Það er einmitt ofuráherslan á fjárhagslega skammtímahagsmuni sem orsakaði hrunið. Þeir sem hafa tekið að sér að stjórna landinu verða að reyna að læra af fortíðinni, axla ábyrgð og ganga í verkin. Kröfur um siðferði, (Forseti hringir.) samfélagslega hagsmuni og samkeppnissjónarmið hljóta að fá að ráða.