138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

þjónustusamningur við Ríkisútvarpið ohf.

136. mál
[14:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að vekja máls á málefnum Ríkisútvarpsins sem er grundvallarstofnun í okkar samfélagi og gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi af svörum hennar varðandi þjónustusamninginn. Setjum þetta í samhengi við þá eigendastefnu sem ríkið hefur markað sér, til að mynda gagnvart sínum fjármálastofnunum þar sem m.a. var komið inn á launastrúktúr innan slíkra stofnana. Nú er ljóst að Ríkisútvarpið þarf eins og aðrar opinberar stofnanir eða félög í eigu hins opinbera að taka á í þeim efnum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hún hafi beitt sér fyrir því, með hliðstæðum hætti og innan fjármálafyrirtækjanna, gagnvart stjórnendum RÚV að laun verði jöfnuð þannig að laun þeirra sem eru á hæstu laununum verði lækkuð í samræmi við það sem gengur og gerist annars staðar í samfélaginu. (Forseti hringir.) Óhjákvæmilega verður Ríkisútvarpið ohf. að spara fjármuni eins og aðrir opinberir aðilar.