138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

kennsluflug.

107. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kem upp í fyrirspurnatíma er öryggismál, þau brýnu mál er varða öryggi íbúa á suðvesturhorninu, svo og þeirra sem skipta við flugfélög hér á landi í innanlandsflugi. Það er út af fyrir sig mjög umhugsunarvert að öryggismálum á Reykjavíkurflugvelli sem að mínu viti er ein mikilvægasta samgöngumiðstöð Íslands, hefur verið þannig og mun verða svo um áraraðir héðan í frá, sé svo fyrir komið að kennsluflug sé þar nánast daglega á einhverju viðkvæmasta byggðarsvæði höfuðborgarsvæðisins.

Þær hafa allmargar fréttirnar verið skrifaðar á undanförnum vikum, mánuðum og árum um þær hættur sem íbúum og flugfarþegum af öllu landinu er búin af því kennsluflugi sem er stundað á og við Reykjavíkurflugvöll. Mig langar að vitna í nýlega frétt sem birtist í Morgunblaðinu 22. október sl. þar sem segir af einu atviki sem þessu og er það að mínu viti því miður nokkuð dæmigert. Með leyfi forseta, segir í fréttinni:

„Tildrög málsins eru þau að Cessna-vél með flugkennara og flugnema var á innleið um Skaga og var í sambandi við Reykjavík um aðflug. Á sama tíma var Dash-8-106 vél með 25 farþega og þriggja manna áhöfn að koma frá Egilsstöðum og var hún líka í sambandi við Reykjavík um aðflug.“

Með leyfi forseta, segir Bragi Baldursson, stjórnandi rannsóknarinnar, um þetta flugatvik: „Það var bara tilviljun að þær flugu ekki saman.“

Frú forseti. 56 fet vantaði upp á að þessar flugvélar skyllu saman, 17 metrar og 25 farþegar í húfi. Verður það enn svo, frú forseti, að við stundum kennsluflug í kringum eitt þéttasta net flugsamgangna innan lands á Reykjavíkurflugvelli um ókomin ár? Eða mun hæstv. samgönguráðherra beita sér fyrir því að þetta flug verði fært til þeirra mörgu flugvalla sem hér eru allt í kring? Nægir þar að nefna ágætlega fullbúna flugvelli á Suðurlandi, svo sem eins og á Stóra-Kroppi í Borgarfirði þar sem menn hafa reyndar lagt drög að því að koma upp alvöru- og faglegu kennsluflugi á komandi árum? (Forseti hringir.) Mun samgönguráðherra beita sér fyrir því að öryggi flugfarþega og íbúa á Reykjavíkursvæðinu verði tryggt með því að færa kennsluflug (Forseti hringir.) til þeirra fjölmörgu flugvalla sem hér eru í kring?