138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

sameining rannsóknarnefnda samgönguslysa.

141. mál
[18:12]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson talar um að það sé sérkennilegt að rannsóknarnefnd samgönguslysa sé staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Það er hans skoðun og hann talar um Seðlabankann á landsbyggðinni vegna þess að mest af gjaldeyristekjunum komi af landsbyggðinni. Um þetta mál má rífast lengi og ég fékk nýlega grein í Morgunblaðinu frá flokksbróður hv. þingmanns sem talar um að það vanti miklu meiri framkvæmdir á höfuðborgarsvæðið í vegamálum. Að sjálfsögðu er það svo vegna þess að 19–20 milljarðar — allir kílómetrarnir sem eknir eru á landinu eru mestmegnis eknir á höfuðborgarsvæðinu. Ég bið hv. þingmann að taka það einhvern tíma upp á flokksfundum Sjálfstæðisflokksins og ræða það vegna þess að sitt sýnist hverjum. Mér finnst t.d. mjög athyglisvert þegar fjölmargir vinir mínir á Norðfirði benda á að 25–30%, að mig minnir, af útflutningstekjum Íslendinga komi af því svæði með álverinu á Reyðarfirði og hinni miklu útgerð sem er hjá Síldarvinnslunni. Svo segja þeir að ekkert gangi að fá ný jarðgöng í gegnum Oddsskarðið. En svona er þetta og um þetta verður rifist á næstunni (EKG: Svarið við fyrirspurninni, takk.) — og ætla ég að reyna að koma mér að því.

Efnislega umræðan, eins og hv. þingmaður talar um, fer fram þegar frumvarpið kemur til Alþingis, sem verður vonandi sem fyrst. Umferðarslysin og flugslysin eru hér. Ég og hv. þingmaður höfum oft rætt um byggðamál og ég hef alltaf sagt að það eigi að vera þannig að þegar ný stofnun er sett á fót eða verkefni sett í gang sé full ástæða til að kanna það að setja það út á land. Dæmi um það eru verkefni sem við beittum okkur fyrir um umsjón með óskoðuðum ökutækjum, það er gert hjá sýslumanninum í Bolungarvík, það er nýtt starf. Hins vegar eru umferðarslys og flugslys ekkert nýtt. (Forseti hringir.) Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að þrátt fyrir áhuga minn á að flytja störf út á land verður líka að gæta þess að á bak við þau er fagfólk (Forseti hringir.) sem vinnur við þau. Við rífum það ekki upp með rótum og færum út á land.