138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

Hornafjarðarflugvöllur.

144. mál
[18:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að beina fyrirspurn til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra varðandi Hornafjarðarflugvöll. Spurt er hvort unnið sé að því að Hornafjarðarflugvöllur fái aftur löggildingu sem millilandaflugvöllur með áherslu á ferjuflug og einkaflug og ef svo er, hver sé staða þeirrar vinnu.

Ástæða fyrirspurnarinnar er sú að unnin var greinargerð af hálfu Flugstoða sem skilað var í janúar 2008 um ráðstafanir og kostnað við að færa flugvöllinn á Ísafirði, Vestmannaeyjum og Höfn úr flokki lendingarstaða í flokk I þannig að þessir flugvellir geti þjónað millilandaflugi. Ástæða þessarar vinnu var sú að sveitarstjórnir og aðrir hagsmunaaðilar á þessum stöðum höfðu áhuga á því að þessir möguleikar væru kannaðir og í greinargerðinni eru sett fram og kostnaðarmetin áhrif þessara ráðstafana. Ef við skoðun þá umfjöllun sem Hornafjarðarflugvöllur fær er ljóst að kostnaðurinn er í rauninni tvískiptur. Annars vegar er miðað við fullar flugverndarráðstafanir og þá stofnkostnaður talinn 128 millj. rúmar en hins vegar ef miðað er við takmarkaðar flugverndarráðstafanir er talað um 32 millj. ef maður fer í lægstu mögulegu túlkun á því. Millitalan væri þá 95,4. Þá er árlegur rekstrarkostnaður áætlaður 11,9 millj. kr.

Ég hef áhuga á að vita — ég geri mér grein fyrir að hér er efnahagslægð og vissulega erfitt að ráðast í stórfelldar framkvæmdir en hins vegar er rétt að varpa þeirri spurningu fram og það komi fram í þinginu hvað eigi að gera við þessa greinargerð, hvort það sé ætlun samgönguráðherra og stefna hans að færa flugvöllinn á Hornafirði úr flokknum um lendingarstaði í flokk I. Þá fýsir mig að vita, ef svo er, hver staðan á vinnunni er vegna þess að þrátt fyrir að við stöndum í ákveðnum fjárhagslegum vandræðum með ríkissjóð er samt mikilvægt að við horfum til framtíðar og skoðum hvernig við getum skapað aukin tækifæri til frekari atvinnusköpunar og til eflingar byggð í landinu. Allir vita að Hornafjörður liggur við Vatnajökulsþjóðgarð og í þjóðgarðinum eru falin töluvert mikil tækifæri til eflingar ferðaþjónustu og jafnframt yrði efling flugvallarins til þess að auka flugöryggi. Það eru í rauninni ótæmandi möguleikar sem Vatnajökulsþjóðgarður felur í sér og ekki síst ef hægt væri að auka aðgengi að þjóðgarðinum með því að efla flugvöllinn á Hornafirði.