138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

framtíðaruppbygging á Vestfjarðavegi í kjölfar dóms Hæstaréttar.

[11:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Það er full ástæða til að halda því skýrt til haga að fullkomin sátt virðist vera um mikilvægi þessara vegaframkvæmda og í rauninni löngu áætlað að fara í þær. Það sjá allir sem hafa keyrt þennan veg, og þá náttúrlega sérstaklega þeir sem búa á sunnanverðum Vestfjörðum, að það verður að fara í þessar vegaframkvæmdir. Ég held að hvergi á Íslandi sé jafnátakanlega slæmur vegur við nokkurt byggðarlag, svo stórt byggðarlag, þannig að þetta verður að gera.

Hins vegar er þetta mál orðið svo flókið að ég held að meginþorri landsmanna sé löngu búinn að missa þráðinn í þessu, jafnvel þeir sem hafa reynt að fylgjast með. Um hvað snýst þetta? Umhverfisráðherra ákvað á sínum tíma að leyfa svokallaða leið B þvert á úrskurð Skipulagsstofnunar en hann ákvað að leyfa leið B með sérstökum mótvægisaðgerðum sem lutu að því að farið væri með ákveðnum hætti í þessa vegaframkvæmd í gegnum Teigsskóg. Eins og ég sé það hefur hvorki héraðsdómur né Hæstiréttur beinlínis hnekkt þessu. Þetta er allt saman á einhverjum öðrum atriðum. Héraðsdómur hnekkir þessari ákvörðun vegna þess að umhverfismat á þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar hefur ekki farið fram. Það var sem sagt annað óskylt atriði — en þó skylt.

Hæstiréttur kollvarpaði þessum forsendum og hnekkti þessari ákvörðun á þeim grundvelli að ráðherrann mátti ekki taka tillit til umferðaröryggissjónarmiða í úrskurði sínum. Hvorugt dómstigið hefur beinlínis ýtt út af borðinu hugmynd þáverandi umhverfisráðherra um að fara leið B með tilteknum mótvægisaðgerðum. Þessi dómsgerð hafnar í raun og veru ekki þessari leið, heldur hefur einfaldlega haldið sig við formsatriði. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort ekki þurfi einfaldlega (Forseti hringir.) að úrskurða aftur leið B með mótvægisaðgerðum og gera það þá rétt í það skiptið.