138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

Reykjavíkurflugvöllur -- verklagsreglur bankanna -- Suðvesturlína o.fl.

[13:52]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Í gær var, eins og þingmaðurinn nefndi, dreift hér frumvarpi til laga um ráðstafanir í skattamálum, virðisaukaskattur o.fl. og samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu er von á hinum málunum inn í þingið á morgun. Við getum því væntanlega rætt þessi mál öll á næstu dögum. Í þessum frumvörpum eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum. Þeim var dreift í gær og varða tekjuöflun ríkissjóðs. Þau eru í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2010, að teknu tilliti til ýmissa breytinga varðandi einstaka liði, eins og gengur. Þessi aukna tekjuöflun er einn þáttur af mörgum í víðtækri áætlun ríkisstjórnarinnar til að ná fram jöfnuði í ríkisfjármálum á þremur árum og sem fyrr felur frumvarpið í sér ýmsar breytingar á skattalögum á sviði óbeinna skatta sem var breytt í gær. Samanlagt eru þessar breytingar taldar skila ríkissjóði upp undir 15 milljörðum kr. en aðrar ráðstafanir í skattamálum eru sem sagt væntanlegar í þingið á morgun. Þá höfum við þingmenn allan pakkann fyrir framan okkur og getum unnið úr honum á næstu vikum.

Þingmaðurinn spurði hvort það væri ásættanlegt að málin kæmu fram nú, af hverju þau hefðu ekki komið fyrr. Auðvitað hefði verið ágætt ef þau hefðu komið fyrr en svona er staðan og fyrir okkur liggur að vinna úr málunum eins og staðan er. Ég held að í sjálfu sér sé alveg nægur tími til þess. Þingið einhendir sér í skattamálin á næstu dögum og vikum og önnur mál sem geta beðið bíða þá og víkja til hliðar vegna skattamálanna. Það er langt liðið á 2. umr. og við sjáum hvernig henni vindur fram á næstu dögum. En alla vega er þetta mál komið fram og það er ekki síst á forræði stjórnarandstöðu hvenær þessi mál koma til umræðu í þinginu. Það fer eftir því hvenær málþófinu lýkur.