138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

sjóvarnir við Vík.

149. mál
[14:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um sjóvarnir við Vík í Mýrdal:

1. Hver er áætlaður kostnaður við eflingu sjóvarna við byggðina í Vík í Mýrdal vegna sjávarflóða og landbrots?

2. Hvaða leiðir hafa verið kannaðir til að mæta þeim kostnaði?

Aðdragandinn að þessu máli er mjög alvarlegur og sérstakur. Strax á árinu 1994 var ljóst að mikið landbrot átti sér stað í fjörunni á Mýrdal og stefndi í að það ógnaði bæði byggð og mannvirkjum í þorpinu. Mannvirki eru núna í beinni hættu og á komandi vetri er því talið algjörlega nauðsynlegt að hefja framkvæmdir við sjóvarnir strax. Árið 1994 var gerð áætlun hjá Siglingastofnun um sjóvörn í Vík og fjöruborðið er núna komið langt inn fyrir þau viðmiðunarmörk sem þá voru sett eða einungis 50 metra frá fjörukambi að íþróttavelli og 180 metra að íþróttamannvirkjum. Ef ekkert verður að gert sem allra fyrst munu mannvirki fyrir hundruð milljóna verða í stórhættu.

Hér eiga sér stað hamfarir, þetta flokkast undir að vera mikil náttúruvá og náttúruhamfarir. Dæmin sem hægt er að taka eru þau að barnaskólinn sem byggður var upp úr 1970 í 500 metra fjarlægð frá fjöruborði er núna kominn svo eftir landbrotið að það eru 240 metrar frá skólamannvirkjum til sjávar og 110 metrar frá íþróttavelli og þeir voru áður 300. Landbrotið hefur því gengið gríðarlega hratt fram og nú er svo komið að mannvirki eru í beinni hættu og ef komandi vetur verður óvenju harður og erfiður getur ágangur sjávar orðið til þess að hann nái alla leið og eyðileggi mannvirki núna. Ef það verður meðalvetur sleppur þetta kannski.

Um er að ræða mat upp á 250 millj. kr. framkvæmd sem rúmast ekki innan hefðbundinnar fjárveitingar Siglingastofnunar til sjóvarna og því verður að hækka fjárveitingar til sjóvarna sem þessu nemur eða finna leið til að mæta þessu. Mýrdælir hafa sýnt einstakt langlundargerð með að 40 hektarar af landi hafa horfið beint fyrir framan þorpið og nú er komið að okkur að leysa þetta brýna og erfiða mál. Eitt af því sem hent hefur verið fram er hvort hægt sé að breyta lögum um ofanflóðasjóð þannig að fjárveitingar gætu komið þaðan, því að auðvitað er um að ræða, eins og ég segi, ágang náttúru langt umfram það sem eðlilegt getur talist og því ekki um að ræða eðlilegar eða hefðbundnar sjóvarnir eða varnir að mannvirkjagerð eða samgöngumannvirki. Hér er um að ræða svo alvarlegan og hraðan ágang af náttúrunnar hendi að við verðum að bregðast við strax og finna leiðir til að fjármagna þetta þannig að hægt sé að ráðast í þetta verkefni í vetur.