138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

vegir sem uppfylla staðla Evrópusambandsins.

157. mál
[15:37]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Sem svar við fyrri spurningu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um vegi sem uppfylla staðla Evrópusambandsins vil ég segja þetta:

Með ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1692/96/EB um viðmiðunarreglur um þróun evrópska samgöngukerfisins eru ekki gefnir út staðlar um Evrópuvegi heldur viðmiðunarreglur um þróun þeirra. Eins og fram kemur í 2. kafla leiðbeininganna þar sem fjallað er um vegakerfi eru einkenni TERN-vega hraðbrautir og hágæðavegir sem þegar eru til, nýir eða á skipulagsstigi, sem

1. hafa þýðingu fyrir fjarumferð,

2. eru hjávegir við stór þéttbýli í kerfinu,

3. tengja mismunandi samgöngugreinar

4. tengja landlukt og jaðarsvæði við miðsvæði Evrópusambandsins.

Þessu til viðbótar er stefnt að því að TERN-vegir tryggi notendum hágæðaþjónustu, þægindi, öryggi og upplýsingaþjónustu.

Þar sem um viðmiðunarreglur er að ræða er það íslenskra samgönguyfirvalda að skilgreina nánar framangreind atriði. Íslenskir TERN-vegir eru í aðalatriðum mestur hluti hringvegar 1 og vegir út frá honum að helstu útflutningshöfnum og meginflugvöllum.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður: „Stendur til að fjölga slíkum vegum?“

Sem svar við þessu vil ég segja að vegakerfið er sífellt að breytast. Í haust breyttist skilgreining Djúpvegar sem byrjar nú í Króksfirði en byrjaði áður í Hrútafjarðarbotni. Þar með breyttist TERN-vegakerfið en Djúpvegur er hluti þess. Með þessari breytingu varð Vestfjarðavegur frá Dalsmynni í Borgarfirði að Djúpvegi í Króksfirði TERN-vegur. Á næsta ári mun Landeyjahafnarvegur væntanlega taka við af Þrengslavegi, Þorlákshafnarvegi, og Hafnarvegi í Þorlákshöfn sem TERN-vegur.

Virðulegi forseti. Þetta er svar mitt við þeim tveim spurningum sem eru í þessari fyrirspurn. Eins og hv. þingmaður gat um áðan er þetta fjórða fyrirspurnin sem allar eru um umferðaröryggismál á einn eða annan hátt og ég vil þá nota tækifærið, af því að ég hef smátíma til þess, að þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp á þinginu vegna þess að umferðaröryggismál eru eins og ég hef áður sagt mjög mikilvægur þáttur í samgöngukerfi landsmanna og við verðum sífellt að gefa þeim gaum og gera allt sem við getum til að auka umferðaröryggi og fækka slysum.