138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattlagning á ferðaþjónustuna.

[12:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er kannski ástæða til að fjármálaráðherra taki þátt í umræðum um skattamál sem hér eru á dagskrá, að vísu var athugasemdunum beint til annars ráðherra. Það er ánægjulegt að ferðaþjónustan hefur verið mesta vaxtargrein íslensks atvinnulífs um áratugaskeið. Það hefur hún meira að segja verið á árum þegar erfitt efnahagsástand hefur gengið yfir og á árum þegar gengi íslensku krónunnar hefur verið mjög hátt og Ísland verið á meðal með dýrustu ferðamannalandanna. Árangur íslenskrar ferðaþjónustu, hvernig sem á hann er litið, er glæsilegur í þessum efnum og það segir okkur að Ísland hefur margt að bjóða. Það hefur mikið aðdráttarafl, jafnvel á tímum þegar dýrt er að ferðast hingað og dvelja hér. Nú hefur þetta breyst verulega og samkeppnisstaða landsins er mun sterkari á þennan mælikvarða mælt vegna hagstæðs gengis í þessum skilningi. Og það hefur líka gerst að Ísland hefur fengið mikið umtal og kynningu, vissulega ekki allt jákvætt, en landið og þjóðin vekja eftir sem áður athygli og njóta velvildar þó að banka- og útrásarvíkingar og misvitur stjórnvöld undangenginna ára hafi farið illa með orðspor okkar að því leyti.

Varðandi skattlagningu á ferðaþjónustuna verður því hvergi fundinn staður að hún verði sérstaklega fyrir barðinu á áformum stjórnvalda. Hún verður að sjálfsögðu fyrir byrðum vegna almennra aðgerða, eins og hækkunar tryggingagjalds eða upptöku kolefnisgjalda á allt fljótandi jarðefnaeldsneyti, en þar er um almennar aðgerðir að ræða. Áform sem rædd hafa verið og tengdust ferðaþjónustunni sérstaklega, eins og að leggja grunn að tekjustofni fyrir greinina til uppbyggingar í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum, á fjölsóttum ferðamannastöðum og eftir atvikum að einhverju leyti til markaðssetningar, eru áfram í vinnslu og ekki hefur staðið til að fara fram með þau í ágreiningi við greinina. Sömuleiðis hafa verið lögð til hliðar áform um að hækka virðisaukaskatt á gistingu þannig að þegar upp er staðið og ef menn hafa staðreyndirnar á borðinu, sem menn mundu sennilega hafa ef þeir hefðu beðið með þessa umræðu í nokkra daga og fengju hér fram skattafrumvörpin, (Forseti hringir.) kemur í ljós að ferðaþjónustan getur mjög vel við unað. (Forseti hringir.) Það er farið mjúkum höndum um hana miðað við það sem jafnvel var áformað.