138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil beina því til hæstv. forseta að hann geri þeim þingmönnum sem samþykktu að hér yrði kvöld- og næturfundur um þetta Icesave-mál viðvart um að sú umræða sé hér í gangi. Ég sé einungis einn þingmann Samfylkingarinnar í salnum og veit ég ekki betur en Samfylkingin beri nokkra ábyrgð á hvernig málum er komið því að Icesave-samningarnir þöndust út í stjórnartíð Samfylkingarinnar, sem hafði ráðuneyti bankamála og fleira mætti nefna.

Við hljótum því að kalla eftir þeim þingmönnum sem bera mjög mikla ábyrgð á þessum Icesave-samningum. Ætla þeir að þegja hér í allan dag? Ekki verður við það unað. Við höfum boðist til þess, herra forseti, að ræða um fjáraukalög og fleira, setja málið í nefnd og fá svör við mörgum mikilvægum spurningum sem við höfum lagt fram í þessari umræðu. Það er sorglegt að sjá þetta áhugaleysi hjá hv. stjórnarliðum um þetta stærsta mál (Forseti hringir.) sem Alþingi hefur tekið fyrir í lýðveldissögunni.