138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að koma aðeins að ræðu hæstv. forsætisráðherra. Í fyrsta lagi vil ég segja að það er alrangt hjá hæstv. ráðherra að jafnræðisreglan nái eingöngu til markaðsaðila í samkeppni. Eitt af grundvallaratriðum jafnræðisreglunnar er að mismuna ekki einstaklingum á grundvelli kyns, þjóðernis eða trúar og það hefur ekkert með markaðsaðila í samkeppni að gera.

Ég vil einnig ræða aðeins um þær fullyrðingar hæstv. ráðherra þegar hún talar um það að ef takast eigi einhver uppbygging í íslensku atvinnulífi gerist það ekki nema gengið verði frá þessum Icesave-samningi á þeim forsendum sem núna liggja fyrir og aðilar vinnumarkaðarins kalli eftir lausn málsins vegna þess. Þetta er alrangt hjá hæstv. ráðherra. Aðilar vinnumarkaðarins kölluðu eftir því að málin væru leyst þannig að áframhaldandi aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þau lán sem við eigum von á frá Norðurlöndunum kæmu hér til til þess að styrkja íslenskt efnahagslíf, til þess að hér gæti haldið áfram uppbygging, og hefur ekkert með Icesave-samninginn að gera eins og núna kemur fram. Hæstv. forsætisráðherra er búin að halda þjóðinni í spennitreyju yfir því að ganga verði frá Icesave-samkomulaginu annars muni Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki halda áfram með ferlið gagnvart aðstoð við landið og Norðurlandaþjóðirnar muni ekki opna lánalínur sínar. Nú er það komið í ljós að þetta átti ekki við rök að styðjast, þetta hefur ekkert með Icesave-samninginn að gera.

Hvað er það sem mun breytast í íslensku atvinnulífi og uppbyggingu þess ef við samþykkjum þennan samning strax? Það mun ekkert breytast. Það eru allt aðrar leiðir sem ríkisstjórnin þarf að fara til að efla íslenskt atvinnulíf. Hún þarf að hverfa frá þeirri skattastefnu sem hún er að boða og þeim höftum. Hún þarf að fara að vinna með atvinnuvegunum að því að greiða leið fyrir þeim áformum sem eru í gangi en leggja ekki stöðugt stein í götu íslenskra grundvallaratvinnugreina eins og orkufreks iðnaðar og íslensks sjávarútvegs. Þetta fjallar um það, þetta fjallar um það að efla íslenskt atvinnulíf á grunni þeirra náttúruauðlinda sem við eigum og hefur ekkert með þennan samning að gera og er ekkert annað en hræðsluáróður gagnvart villuráfandi þjóð í þessu máli sem hæstv. ríkisstjórn á allan heiður af að gera villuráfandi (Gripið fram í: Og hóta.) með misvísandi skilaboðum og hótunum sem eru kannski helstu einkenni vinnubragða hæstv. forsætisráðherra, að vinna með hótunum.

Mun Icesave-samningurinn lækka hér vexti? Mun Icesave-samningurinn stuðla að aukinni erlendri fjárfestingu eða styrkja hér gengi? Það eru allt aðrir hlutir sem ráða þar ferð.

Í grundvallaratriðum er mikill ágreiningur á milli hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarandstöðuflokkanna. Það að reyna að gera, eins og hefur gjarnan verið gert í þessari umæðu, vinnubrögð fyrri ríkisstjórna tortryggileg og vitna ítrekað í ummæli hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann viðhafði fyrir tæpu ári síðan í þinginu þegar hann talaði um það og þáverandi ríkisstjórn að það væri varhugavert að fara dómstólaleiðina. Þá áttu menn auðvitað við það að varhugavert væri að fara þá leið án þess að búið væri að reyna á samningsferlið fyrst, vegna þess að í dómstólaleiðinni er alltaf falin einhver óvissa. Í því fólst alls ekki nein viðurkenning á því að samningaleiðin væri hinn endanlegi valkostur. Út úr henni varð að koma sá samningur sem ásættanlegur var fyrir báða aðila. Þessi samningur er alls ekki ásættanlegur að okkar mati.

Við munum standa hér vaktina í þessu máli. Við munum reyna að vekja þjóðina til umhugsunar í þessu máli og fá hana til að átta sig á mikilvægi þess, átta sig á því að það liggur ekkert. Það liggur ekkert á í þessu máli í dag. Það er ekkert sem þrýstir á okkur og það er alveg stórhættulegt að fara þá leið sem hæstv. ríkisstjórn er að varða.

Það er eins og ríkisstjórnin sé búin að missa móðinn, ekki bara í þessu máli heldur svo mörgum öðrum. Hún virðist hafa það eina markmið að þýðast viðsemjendur okkar. Maður veltir fyrir sér: Hvað veldur því, hvað er það sem ræður för þegar ríkisstjórnin vill gefa hér algjörlega eftir? Er það þrekleysi eða kjarkleysi eða slakir ráðgjafar, hvers vegna? Eða er það Evrópusambandsaðildin, eins og misvísandi skilaboð koma fram í dag um að Evrópuþingið sé að byrja að beita okkur þrýstingi til að klára þetta mál ef það eigi ekki að koma niður á aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu?

Hæstv. ráðherrar hafa látið málið fara mjög í taugarnar á sér í þinginu undanfarna daga. Þegar þingmenn hafa verið að taka til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnum eða undir dagskrárliðnum Störf þingsins þetta mikilvæga mál, hafa ráðherrar gjarnan gagnrýnt það að við séum að ræða þetta í stað þess að reyna að svara þeirri gagnrýni með málefnalegri umfjöllun. Hæstv. ráðherrar Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir hafa verið í fararboddi í þessu, að svæfa umræðuna og gera lítið úr því sem sagt er hér.

Ábyrgð þingmanna meiri hlutans er auðvitað mikil hér líka með algjöru þátttökuleysi í umræðunni. Það er merkilegt að fylgjast með þeim þingmönnum sem andæfðu hér í sumar, tóku þátt í því með okkur í minni hlutanum á þinginu að koma einhverju viti í þennan samning, koma inn þeim fyrirvörum sem mikilvægir eru til að vernda íslenska hagsmuni, það er merkilegt að fylgjast með því hvar þeir eru staddir núna. Einhverjir þeirra eru farnir í frí, aðrir farnir úr ríkisstjórn og hinir fara hér og eins þeir læðist með veggjum. Það er sorglegt. Það er auðvitað ákveðin ógn við lýðræðið hvernig málsmeðferðin hefur verið, bæði innan þingsins, í þeim nefndum sem hafa fjallað um málið, og sá þrýstingur og þær hótanir sem við finnum núna fyrir frá hæstv. ríkisstjórn.

Niðurstaða samningaviðræðnanna sem beðið var eftir í vor er auðvitað algjör niðurlæging, var algjör niðurlæging, mikil vonbrigði. Segja má að þá hafi tónninn verið sleginn, hann hafi verið sleginn fyrir þá fullkomnu uppgjöf sem virðist vera í málinu og allur baráttuvilji er úr. Það átti að keyra þetta, það er ágætt að rifja upp að það átti að keyra þetta í gegn í skjóli nætur. Það eru alveg furðuleg vinnubrögð hjá ríkisstjórninni að reyna ekki í þessu mikilvæga máli að ná breiðri samstöðu, nota þennan breiða vettvang hér til að ná samstöðu um þetta mál og láta í raun alla flokka koma að þeirri vinnu.

Vinnubrögðin hafa framkallað mjög djúpstæðan ágreining um málið, ekki bara á Alþingi heldur einnig meðal þjóðarinnar. Þegar fyrir lá í vor, eftir að hæstv. ríkisstjórn hafði ætlað að reyna að keyra málið í gegn í skjóli nætur, betri samning var ekki að hafa, var fullyrt þá, að lengra yrði ekki komist, þetta væri það sem hægt væri að bjóða og þetta væri í raun góður samningur var mat forustumanna ríkisstjórnarinnar. En þegar spyrnt var við fótum og það lá fyrir að þetta næðist ekki í gegn breyttu þeir allt í einu um yfirlýsingar. Nú vildu allir fara að ræða einhverja fyrirvara. Nú voru forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherrar Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, búin að breyta um tón. Nú var sjálfsagt að leggja í mikla vinnu og setja inn fyrirvara sem gætu lagað aðeins stöðuna.

Sumarið leið með mikilli og góðri vinnu þar sem þingið var að störfum í fyrsta skipti í sögu þingsins í svo langan tíma. En það var líka fullt tilefni til og menn báru von í brjósti að sá árangur sem náðist yrði til þess að skila okkur áfram í þessu máli og yrði til þess að tryggja hagsmuni íslenskrar þjóðar, yrði til þess að sú niðurstaða yrði hér að við gætum ráðið við þetta gríðarlega verkefni og viðurkennt þar með að við ættum að vera þátttakendur í því að bæta fyrir það tjón sem orðið var.

Það voru allir sammála um mikilvægi niðurstöðunnar þegar hún lá fyrir. Menn greindi reyndar á á þeim tíma hvort niðurstöðurnar eða fyrirvararnir samrýmdust fyrirliggjandi samningi. Í hugum ráðherra ríkisstjórnarinnar og forustumanna stjórnarflokkanna var það engin spurning að fyrirvararnir sem Alþingi setti í lögin samrýmdust og væru innan ramma samningsins á meðan stjórnarandstaðan túlkaði þetta með þeim hætti að hér væri um nýtt samningstilboð að ræða.

Þarna má segja að hafi enn og aftur verið slegið ryki í augu almennings þegar forustumenn ríkisstjórnararinnar héldu því fram að um væri að ræða fyrirvara sem samræmdust fyllilega þeim samningi sem lægi fyrir, það væri í raun ekkert annað en að bæta þeim inn í og þá væri samningurinn frágenginn. Við töldum aftur á móti að þarna væri um nýtt samningstilboð að ræða og inn væru komin grundvallaratriði til tryggingar afkomu og öryggi samfélagsins. Ég hefði haldið, miðað við þá reynslu sem fengin var frá sumrinu, að nú mundi ríkisstjórnin breyta um vinnubrögð, nú mundi ríkisstjórnin leita til stjórnarandstöðunnar um þátttöku í þeirri vinnu sem fram undan væri til að semja við Evrópuþjóðir um aðild okkar að þessum Icesave-samningi. En þrátt fyrir útrétta hönd, þrátt fyrir ítrekuð tilboð stjórnarandstöðunnar í þá átt að bjóða fram aðstoð sína og þátttöku í samningaferlinu sem af stað fór aftur í september þá skyldi ríkisstjórnin hafna því og auka enn á óeininguna.

Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan eftir nokkurra vikna viðræður er sú að við erum með samning, útvatnaðan samning sem er engu betri en sá upphaflegi sem var lagður fyrir okkur, eins og fram hefur komið engu betri en þótt við hefðum tapað málinu fullkomlega fyrir dómstólum og sætum ein uppi með tjónið af þessum reikningum. Þá tók við vinnan í þinginu, vinna sem við bárum vissulega von í brjósti um að mundi bera einhvern árangur en það hefur ekki verið boðið upp á vinnubrögð á þeim vettvangi sem hafa orðið til að ná einhverri sátt um málið.

Í raun hefur verið brotið blað í öllum vinnubrögðum meiri hlutans í þessu máli. Yfirgangur hans er alger og þrátt fyrir allar þær yfirlýsingar og þann fagurgala um breiða samstöðu, um aukna samvinnu, um meira gegnsæi, gengur ríkisstjórnin í fararbroddi þess að brjóta ríkar hefðir um samstarf um mikilvæg mál í þinginu. Það liggur alveg fyrir.

Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 96/2009 voru viðmiðin sögð vera forsenda fyrir veitingu ríkisábyrgðar, forsenda sem í raun ríkisstjórnir Íslands, Bretlands og Hollands hafa nú sameinast um að virða að vettugi og ætla að bjóða Alþingi að gera slíkt hið sama. Ekki er að sjá annað en hv. þingmenn meiri hlutans ætli að verða við þeirri beiðni að virða að vettugi þau lög sem Alþingi samþykkti í haust og eru í gildi í landinu í dag. Ekki er að sjá annað en hv. þingmenn meiri hlutans ætli að greiða fyrir málinu þrátt fyrir allar þær alvarlegu athugasemdir sem koma nú fram frá mörgum sérfræðingum hér á landi og erlendis frá. Það er verið að hafna allri samstöðu í landinu. Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar er verið að hafna allri samstöðu, alið er á ágreiningi meðal þjóðarinnar, það er ekki nóg með að verið sé að gera það á hinu háa Alþingi heldur meðal þjóðarinnar. Nú er þjóðin að byrja að spyrna við fótum. Þegar hafa sennilega yfir 4 þúsund manns, eitthvað á 5. þúsund manns skrifað undir áskorun hjá Indefence-hópnum, grasrótarhóp sem berst fyrir hagsmunum þjóðarinnar í þessu máli.

Við skulum líta aðeins á þær breytingar sem stjórnvöld leggja til að verði á lögum nr. 96/2009, sem samþykkt voru í sumar. Í fyrsta lagi efnahagslegi fyrirvarinn. Viðaukasamningurinn felur í sér að hinn efnahagslegi fyrirvari um greiðsluhámark er nánast að engu orðinn. Samkvæmt fyrirvörum Alþingis átti 6% greiðsluþakið jafnt við um vaxtagreiðslur og greiðslur af höfuðstól. Nú skulu vextir hins vegar greiðast að fullu óháð efnahagslegu ástandi á Íslandi og 6% greiðsluþakið á einungis við ef heildargreiðslur eru hærri en vaxtagreiðslur. Þetta var eitt það mikilvægasta atriði sem sett var inn í fyrirvarana, að tryggja það að greiðslur okkar til Breta og Hollendinga vegna Icesave-samninganna væru bundnar hagvexti í landinu, að við gætum með auknum hagvexti og meiri hagvexti borgað hærra og borgað meira. En ef hér yrði efnahagslegur samdráttur þá væri borð fyrir báru, þá hefðum við skjól af fyrirvörunum. En nú þarf samt að borga vaxtagreiðslur sem er alveg útilokað að segja fyrir um hve verða háar.

Þessir nýju efnahagslegu fyrirvarar sem eru hér af hálfu ríkisstjórnarinnar munu því ekki veita neitt skjól þegar mest á reynir og þeir uppfylla því alls ekki svokölluð Brussel-viðmið sem kveða á um það að tillit verði tekið til fordæmislausra aðstæðna á Íslandi, erfiðra aðstæðna. Þetta eru þau viðmið sem aðilar komu sér saman um seint á síðasta ári að yrði unnið eftir í þessum samningaviðræðum og það þarf engan sérfræðing til að sjá að svo hefur ekki verið.

Einn fyrirvarinn fjallaði um fyrirvara Alþingis um að ríkisábyrgð skuli aðeins gilda til ársins 2024 og nú er þetta ákvæði fellt úr gildi. Í núgildandi fyrirvörum felst réttur til að ríkisábyrgðin falli einhliða niður ef viðræður um framlengingu hennar ber ekki árangur. Þessi vörn er að hverfa. Í stað þessara mikilvægu fyrirvara Alþingis eru í viðaukasamningi stjórnarinnar ákvæði um að greiðslur Íslands skuli eftir 2024 framlengjast sjálfkrafa um fimm ár í senn á 5,5% vöxtum allan tímann þar til skuldin er að fullu greidd. Vextirnir á þessum samningi hafa orðið að umtalsefni og þeir vekja furðu. Á sama tíma og bresk og hollensk stjórnvöld eru að fjármagna sig til lengri tíma á 3,8% vöxtum láta þau Íslendinga sem átti að semja við með tilliti til fordæmislausra aðstæðna, erfiðra aðstæðna, borgar 5,5% vexti, 80% hærri vexti. Þetta eru milljarðar á milljarða ofan fyrir þessa fámennu þjóð sem hefur nægar byrðar að bera á næstu árum.

Spá Seðlabanka um hagvöxt er mikil bjartsýnisspá og hún á sér ekki fordæmi. Það er ekki tekið tillit til þess í þessum samningi eða í þeirra spá hvað gerist ef hér verður t.d. aflabrestur, ef hér verða náttúruhamfarir, ef neyðarlögin standast ekki og annað mætti upp telja. Það er eins og menn gleymi alltaf staðreyndum. Menn gleyma því í hvers konar landi við búum, hve háð við erum náttúruöflunum og hve margir ófyrirséðir þættir geta spilað inn í afkomu íslensks samfélags. Þetta getur orðið eilífðarklafi á íslenska þjóð og þá verður þetta minnisvarði þessarar vinstri stjórnar og mun sennilega alltaf verða það, minnisvarði þessarar merkilegu stjórnar jafnaðar og félagshyggju.

Lagalegi fyrirvarinn er líka felldur úr gildi. Heimild til að leita úrlausnar dómstóla er mun veikari í viðaukasamningnum en í núgildandi lögum. Það verður að hafa þar í huga þá mikilvægu staðreynd að lögsaga alls ágreinings tengdum Icesave-samningum verður ávallt í breskri lögsögu ef við staðfestum breytingalög við ríkisábyrgðina. Í niðurstöðu ríkisstjórnarinnar kemur fram að höfði Ísland mál fyrir dómstóli og hafi sigur þá hafi sú niðurstaða engin áhrif gagnvart Bretum og Hollendingum að öðru leyti en því að þessar þjóðir þyrftu að eiga við okkur viðræður. Það er alveg ótrúleg réttarstaða sem er verið að setja okkur í. Yrði niðurstaða málsins með öðrum orðum á þá leið að samkvæmt gildandi lögum beri íslenska ríkinu ekki skylda til að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands þá hefur slík dómsniðurstaða samkvæmt samkomulaginu engin áhrif á greiðsluskyldu íslenska ríkisins gagnvart Bretum og Hollendingum. Þeir hafa í raun komið í veg fyrir það með viðaukasamningnum að við getum breytt skilyrðum Icesave-samninganna með því að leita eftir niðurstöðu dómstóla. Það er fáheyrt að einhver, hvort sem það er einstaklingur, fyrirtæki eða heil þjóð, skuli semja frá sér réttinn um að leggja málið fyrir dómstóla og það beri að hlíta niðurstöðum þeirra. Í hvers konar samfélagi búum við og í hvers konar samfélag erum við að leita eða það fólk sem hefur einhvern hug á því að ganga í svo kallað Evrópusamband? Þessir viðsemjendur okkar hafa, það er ekki hægt að orða það öðruvísi en að þeir hafi ákveðið sjálfdæmi í þessu máli. Það sama á við um svokallaðan Ragnars Hall-fyrirvara í þessu. Hann getur aðeins orðið gildur ef ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins er í samræmi við niðurstöðu íslenskra dómstóla, þannig að það er ekki mikið traust sem við upplifum þarna hjá viðsemjendum okkar og hvað þá hjá samninganefnd okkar að standa ekki föstum fótum á því að niðurstöðu íslenskra dómstóla beri að virða þar sem það á við. Það er í raun verið að segja að niðurstaða Hæstaréttar Íslands sé ekki marktæk nema ákveðin skilyrði séu uppfyllt og það hlýtur að vera mjög umdeilanlegt hvort þetta ákvæði standist skoðun, virðulegi forseti, standist stjórnarskrána. Þetta þarf klárlega miklu meiri umfjöllun til að menn geti komið sér niður á einhverja niðurstöðu.

Niðurstaðan er ljós í þeim samningi sem nú liggur fyrir þinginu. Þeir meginfyrirvarar sem svo mikil sátt náðist um í sumar, sem svo stór orð og falleg voru höfð um þá breiðu samstöðu sem náðist hér og alla þá vinnu sem lagt var í, þessir meginfyrirvarar eru allir fyrir bí og upp er komin mikil lagaleg óvissa og ágreiningur, óvissa sem nær til þess að hér sé mögulega verið að brjóta stjórnarskrá lýðveldisins.

Einn okkar helsti lagaspekingur, Sigurður Líndal, skrifaði merkilega grein í fjölmiðlana fyrir nokkrum dögum. Ég ætla að fá að vitna í hana, með leyfi forseta. Hann segir m.a.:

„Merkilegt má heita að í þeirri miklu umræðu sem fram hefur farið virðist ekkert hafa verið fjallað um hversu langt heimildir löggjafans ná til að skuldbinda íslenska ríkið (og þá um leið þjóðina) með þessum hætti, hvort ekki sé óhjákvæmilegt að setja slíkum skuldbindingum, sem allt bendir til að verði mjög þungbærar, einhver takmörk eins og leitast var við að gera í lögum nr. 96/2009. Og þá hlýtur stjórnarskráin að koma til skoðunar.“

Hann heldur áfram og ég vitna í hann áfram, með leyfi forseta:

„Þar er ekki tekið berum orðum á slíkum álitamálum. Í 21. gr. segir að samþykki Alþingis þurfi til breytinga á stjórnarhögum ríkisins og í 40. gr. að ekki megi taka lán er skuldbindi ríkið nema samkvæmt lagaheimild. Með frumvarpi því sem nú bíður afgreiðslu liggur vissulega fyrir lagaheimild, en verður ekki að gera þá kröfu að hún sé þannig úr garði gerð að skuldbindingum séu sett skýr takmörk og stofni þannig fullveldi ríkisins ekki í hættu? Og hér er álitaefnið hvort frumvarpið fullnægi þessum áskilnaði.“

Og Sigurður Líndal spyr hvort ekki væri nú rétt að huga að þessu áður en frumvarpið verði samþykkt.

Hér talar einn af okkar helstu sérfræðingum sem leitað hefur verið til í áratugi, prófessor í lögum við Háskóla Íslands og nú við Háskólann á Bifröst. Þessi sjónarmið á að virða að vettugi. Álitaefnin eru gríðarlega alvarleg, virðulegi forseti, gríðarlega alvarleg. Og það er mjög alvarlegt hvernig umræðan af hálfu hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans er í þessari umræðu, hvernig málflutningur þeirra er, t.d. hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar og hv. þm. Guðbjarts Hannessonar sem orðuðu það einhvern veginn með þeim hætti að það væri bara hægt að segja þessari ríkisábyrgð upp síðar. (Gripið fram í: Segir hver?) Það væri hægt að segja henni upp síðar. Hverjum er verið að slá ryki í augun á, virðulegi forseti? Þetta er ekki svona. (Utanrrh.: Kannski hefur það bara verið svona.) Því hallast ég helst að í þessu máli, hæstv. ráðherra, eða kannski að menn hafi ekki kynnt sér málin nægilega mikið og ég hallast frekar að því. (Gripið fram í.) Ég hallast frekar að því að hæstv. ráðherra og hv. þingmenn Guðbjartur Hannesson og Björn Valur Gíslason sem sagði að þetta væri sanngjarn samningur og tekið væri tillit til fordæmislausra aðstæðna á Íslandi í þessum samningi, Brussel-viðmiðin væru í heiðri höfð í þessum samningi. Ég hallast helst að því að þessir hv. þingmenn hafi hreinlega ekki kynnt sér um hvað þetta fjallar. Þeir eru önnum kafnir, ég átta mig á því, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, og hv. þm. Björn Valur Gíslason varaformaður eru önnum kafnir menn og hafa örugglega ekki náð að kynna sér málið til hlítar.

Það er alvarlegt þegar menn sem vilja láta taka mark á sér tala með þessum hætti og það skín í gegn að þeir hafa ekki kynnt sér það sem fram kemur og ekki kynnt sér þá gagnrýni sem uppi hefur verið höfð á þennan samning. Hvar er sanngirnin í þessum samningi? Einhliða ábyrgð Íslendinga, liggur hún í henni? Vaxtamuninum, liggur hún í honum? Viðurkenningu á dómstólaleiðinni? Hvað með það ófyrirséða? Hvar liggur þessi sanngirni?

Mér finnst það skína í gegn að við erum að eiga við nýlenduríki sem ásælast náttúruauðlindir og það er stór hætta á því ef fer sem horfir að við getum staðið frammi fyrir miklu alvarlegri hlutum en við stöndum frammi fyrir í dag ef við náum ekki að standa við þessar skuldbindingar okkar. Það er kannski það alvarlegasta sem við erum að fjalla um. Það má segja að við hefðum alveg eins getað samið við Breta og Hollendinga og sagt við þá: Við eigum einhverjar náttúruauðlindir í framtíðinni. Við eigum vonarauðlindir sem liggja á Hatton-Rockall-svæðinu eða Drekasvæðinu. Við skulum bara semja við ykkur um það að þegar þessar auðlindir fara að gefa af sér þá borgum við ykkur. Fyrstu árin eða áratugina fer stór hluti af afurðum af þessum auðlindum til ykkar og við klárum þennan pakka við ykkur.

Það er staðreynd að það er búið að beita okkur öflugum pólitískum þrýstingi og það virðist vera að Evrópuþingið sé að auka þann þrýsting núna. Við eigum reyndar eftir að fá útfærslu á því hvað nákvæmlega átti sér stað þar. En samkvæmt fréttum í netmiðlunum þar sem vitnað er í Bloomberg-fréttaveituna virðist sem aðilar innan Evrópuþingsins eða Evrópuþingið ætli að fara að þrýsta á okkur um frágang á Icesave-samningnum. Að öðrum kosti séu í uppnámi aðildarviðræður okkar við Evrópusambandið. Þó að það hafi snúist í höndunum á þeim að beita fyrir sig Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum er það engu að síður staðreynd, sem ég held að við séum öll sammála um, að á tímabili var það þannig að þessir aðilar spiluðu með Hollendingum og Bretum í gegnum Evrópusambandið að beita okkur þrýstingi, en sá þrýstingur er farinn. Þegar forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði Norðurlöndin hafa staðið á bak við þetta voru Norðmenn fljótir til og samþykktu að afgreiða lánið til okkar. Það sama var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn búinn að gera, þannig að nú er ekki sá þrýstingur fyrir hendi. Stjórnvöld hafa greinilega ekki áunnið sér mikið traust viðsemjenda sinna í þessum samningaviðræðum og í því ferli sem hefur verið í gangi. Ekki þarf annað en líta á þær bréfaskriftir sem hafa verið milli hæstv. forsætisráðherra og forsætisráðherra Breta og Hollendinga þar sem hún var ekki virt svars svo vikum skipti og þau svör sem síðan berast taka ekki til nema hluta af erindi hennar og eru í raun ekkert annað en lítilsvirðing við þær óskir sem hæstv. forsætisráðherra bar fram. Það má segja að þetta endurspegli svolítið frammistöðu okkar í þessum viðræðum öllum. Það er nefnilega svo að í samningaviðræðum ávinna menn sér traust þeirra sem þeir eru að semja við eða þeir þykja varla svarsins verðir. Þannig koma Hollendingar og Bretar fram gagnvart ríkisstjórn Íslands. Hún er ekki svara verð. Þannig hefur verið haldið á málum á okkar bæ og er þetta einkunnagjöfin sem hæstv. ríkisstjórn fær frá viðsemjendum okkar.

Það var greinilegt að viðsemjendur okkar ætla ekki að halda neinn fund um þessa fyrirvara sem eru svo mikilvægir. Þeir ætla ekki að ræða við hæstv. forsætisráðherra um þessa fyrirvara. Þeir vilja frekar fá hana á kampavínsfund þar sem skálað er fyrir skilyrðislausri uppgjöf. Þarna eru nýlenduþjóðir að eiga við smáþjóð og krefjast einskis annars en skilyrðislausrar uppgjafar og hæstv. ríkisstjórn virðist ekki ætla að standa í lappirnar. Hér virka ekki hefðbundin vinnubrögð hæstv. forsætisráðherra að hóta mönnum. Hér gengur það ekki að fara á fund þessara þjóðarleiðtoga og hóta. Ég held að hún ætti að fara að hlusta á forvera sinn hjá Samfylkingunni, hlusta á hvað hún hefur að segja um þetta mál. Það er ekki stjórnarandstaðan sem setur líf ríkisstjórnarinnar á þráðinn í þessu máli, það gerir hæstv. forsætisráðherra. Stjórnarandstaðan vill vinna með stjórnarmeirihlutanum í þessu máli. Við viljum leggjast á eitt, við viljum gefa þessu meiri tíma og við viljum ná ásættanlegri niðurstöðu. Það á að vera hægt að mæta þeirri ósk okkar. Ég skil ekki hvernig sumir stjórnarþingmenn geta í raun stutt þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir, sérstaklega hv. þingmenn innan Vinstri grænna. (Gripið fram í.) Hvernig ætla þeir að svara þjóðinni, svara sínum kjósendum? Hvernig ætlar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, sem segir að hann ætli ekki að tipla á tánum í kringum Samfylkinguna í ESB-málum, hvernig ætlar hann að svara því þegar Evrópuþingið er nú farið að hóta Íslendingum að þetta muni hafa áhrif á aðildarumsókn okkar ef við samþykkjum ekki Icesave eins og það liggur fyrir núna? Hvað verður að marka þetta fólk? Það er svo sem mikill viðsnúningur búinn að vera hjá þessum flokkum í öllum málflutningi en hvað verður að marka þetta fólk? Ég vona og ég trúi því að þeir sem lögðust á árarnar í sumar muni koma að þeim aftur núna og við munum koma hæstv. ríkisstjórn í skilning um það að við viljum ekki fara þessa leið. Við viljum láta reyna frekar á málið. Við viljum fara samningsleiðina en við viljum ná ásættanlegri samningi en nú liggur fyrir.

Staðan er þannig í dag að það er mikil upplausn í samfélaginu vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar og vegna þeirra aðgerða sem hún er að boða. Það er vaxandi óvissa í málum fjölskyldna, skjaldborgin fræga sem átti að slá um heimilin í landinu hefur heldur betur látið á sér standa. Það er í raun sorglegt og grátlegt að hlusta á þær sögur sem við þingmenn fáum til okkar og fjallað er um í fjölmiðlum núna á hverjum einasta degi um afdrif íslenskra fjölskyldna út af aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Það er sorglegt að fylgjast með því hvernig óvissan er vaxandi gagnvart meðferðinni á fyrirtækjum í landinu. Ógegnsæi, mismunun, það er verið að væna kerfið um að hér sé stunduð vinavæðing og klíkuskapur og það eru nefnd dæmi. Þetta er ekki þannig að þetta séu eitt og eitt dæmi sem koma inn á borð hjá okkur í þessum efnum. Þau eru mörg og sjaldan lýgur almannarómur þegar svo margir hafa orð um þetta sama. Við erum að upplifa gríðarlega aukinn fólksflótta frá landinu, aukna óvissu vegna ósamstöðu í málum, svo sem Icesave. Ég skora á ríkisstjórnina að taka mark á undirskriftasöfnun Indefence-hópsins. Ég skora á ríkisstjórnina að fara að hlusta á þjóðina, fara að vinna að því að ná einhverri sátt með stjórnarandstöðunni og þjóðinni um svo mikilvæg mál.

Forseti Íslands verður náttúrlega í vandræðum með þá áskorun sem hann er að fá. Ég ætla ekki að fella dóm um það hvort hann á að neita að undirrita þessi lög ef þau verða afgreidd frá þinginu. En sá er munurinn á þessu máli og þeim fjölmiðlalögum sem hann neitaði að undirrita og staðfesta á sínum tíma að þar var þó hægt að setja önnur lög en þessi binda þjóðina um alla framtíð. Þeim verður ekki hægt að breyta á Alþingi. Þau verða minnisvarði um þá vinstri stjórn sem hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir leiðir.

Krafa okkar fjallar ekki um það að koma ríkisstjórninni frá. Krafa okkar er sú að við efnum til breiðs samstarfs um þetta mál á Alþingi, málinu verði frestað og gefinn lengri vinnutími, unnið verði að því að ná miklu breiðari sátt en nú er. Það er ekkert sem ýtir á okkur. Við erum tilbúin að vera hér næturlangt, allar helgar ef á þarf að halda fram að jólum til að klára þau mál sem snúa að heimilum og fyrirtækjum í landinu. Ríkisstjórnin er búin að afgreiða tvö mál í gegnum þingið á þessu hausti. Það er algert fádæmi og sýnir hve aðgerðaleysi hennar er mikið. Ég hvet ríkisstjórnina til að endurskoða hug sinn. Ég hvet forseta þingsins til að beita sér fyrir því að umræðunni verði frestað og tekið verði til við þau málefni sem eru brýn fyrir samfélagið og þjóð okkar.