138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi leita ákveðinna upplýsinga hjá hæstv. forseta í tilefni af orðum hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag þar sem hann sagði beinlínis að umræða um Icesave stæði því fyrir þrifum að hér kæmust á dagskrá mál frá fjármálaráðherra um skattamál. Ég vildi því spyrja hæstv. forseta hvort þau frumvörp fjármálaráðherra sem hann er m.a. að vísa til, um breytingar á skattalögum, séu komin til þingsins. Hæstv. forseti getur auðvitað leitað upplýsinga um þetta, en svo ber við að á þriðjudaginn kom hér inn eitt af þremur boðuðum frumvörpum hæstv. fjármálaráðherra um skattamál en boðað er að tvö komi í viðbót. Ég vildi vita hvort hæstv. forseti getur upplýst um það hvort þau frumvörp sem hæstv. fjármálaráðherra gefur í skyn að þurfi að bíða út af Icesave-umræðunni eru (Forseti hringir.) yfir höfuð komin til þingsins.