138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það hefur komið í ljós við umræðuna, m.a. í ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, að þau frumvörp sem hæstv. fjármálaráðherra bar sig illa undan hér fyrr í dag að væri ekki hægt að taka á dagskrá, eru ókomin inn í þingið og koma kannski á morgun. (Gripið fram í.) En vegna þessara ummæla og vegna þeirra ummæla sem komu fram hjá hæstv. fjármálaráðherra í dag er auðvitað rétt að geta þess, eins og kom fram í máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, að stjórnarandstaðan hefur skilning á því að þau mál sem varða fjárlögin með einum eða öðrum hætti, komist á dagskrá og geti gengið til nefndar. Það tilboð hefur verið lagt fram en það hefur verið slegið á þá útréttu sáttarhönd af hálfu stjórnarinnar. Mér finnst þetta mál og málsmeðferðin bera vitni um það að ríkisstjórnarmeirihlutinn er rekinn áfram í þessu máli af (Forseti hringir.) þrjósku en ekki verkviti.