138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja enn og aftur athygli á þessu atriði vegna þess að þetta ákvæði í nýja málinu og umfjöllun um það er eitt af því furðulegra sem ég hef rekist á í ferðum mínum um þingsali. Þar er í rauninni verið að ætlast til þess að íslenskir dómstólar séu fyrir fram undir einhverjum skipunum frá EFTA-dómstólnum, en EFTA-dómstóllinn kannast ekkert við að hafa eitthvert slíkt skipunarvald. Að mínu mati eru þarna einhverjir skriffinnar eða embættismenn úti í Brussel að reyna að finna leið til þess að segja okkur, eða til að ríkisstjórnin geti sagt okkur, að vissulega megi bera málið undir íslenska dómstóla en í Brussel sé hægt að segja að ekkert væri að marka það vegna þess að það væri búið að ákveða niðurstöðuna fyrir fram og hún væri ákveðin úti í Evrópu.

Hvað segir þetta um virðingu gagnvart íslensku dómsvaldi? Hvað segir þetta um sjálfstæði þjóðar, fullveldið okkar og skiptingu ríkisvaldsins í þrennt? Þetta vekur svo margar lögfræðilegar vangaveltur með manni að ég tel að hægt væri að ræða um það í þingsölum í nokkrar vikur og þá þyrfti nú aldeilis að kalla menn fyrir fjárlaganefnd.

Eins og ég skil það, herra forseti, er þetta síðasta andsvarið við mína ræðu og því langar mig að lokum að vekja enn og aftur athygli á því að þetta nýja frumvarp kollvarpar í öllum grundvallaratriðum þeirri vinnu sem þingið fór í hér í sumar. Við skulum ekki bregðast, við þingmenn þjóðarinnar, við skulum og höfum enn möguleika á að fella þetta mál. Það skulum við gera og ég skora á þingheim allan að standa með íslensku þjóðinni í málinu og fella þetta frumvarp.