138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Á Íslandi, þar sem einungis eru 320.000 íbúar, sjá menn nú fram á að þurfa að axla margra milljarða evra skuldabyrði sem langstærstur hluti þjóðarinnar ber nákvæmlega enga ábyrgð á og ræður alls ekki við að greiða. Þetta, frú forseti, skrifar Eva Joly nú í ágústmánuði.

En áður en ég vitna frekar til þeirrar ágætu konu vil ég geta þess að ég er í senn dapur og mjög hugsi yfir því sem er að gerast. Mér er sagt það af mönnum sem lengi hafa setið hér, ég hef ekki verið hér nema nokkra mánuði, að það hafi verið viðtekin venja að menn fari svona í gegnum hlutina. Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum ekki að breyta þessu fyrirkomulagi, alveg sama hverjir eru í stjórn á hverjum tíma, hvaða flokkar það eru eða hvað sem það er. Það er nefnilega alltaf þannig að þegar menn taka ákvarðanir um ákveðna hluti verða menn að vanda sig. Ég hef alltaf litið svo á að þegar ég er að taka ákvarðanir, sem ég hef þurft að gera margar í gegnum lífið, við að stýra sveitarfélagi, vera í atvinnurekstri og vera skipstjóri og margt fleira — ég er alltaf ánægðastur þegar ég fæ sem mestar umræður og sem mesta gagnrýni á ákvörðunina sem ég er að fara að taka. Þá kafa menn betur ofan í hlutina og slíkt veitir ákveðið aðhald. Á því þarf fólk sem taka þarf ákvarðanir að halda, sama hver á í hlut.

Ég held, virðulegi forseti, að við ættum að hugsa það vandlega, öll sem hér erum inni, að við þurfum að breyta þessu fyrirkomulagi. Þegar svona stór mál eins og þetta eru undir þurfi verklag að vera með þeim hætti að stjórnarþingmenn á hverjum tíma, sama hverjir það eru, eigi að fara í andsvör við stjórnarandstæðinga þegar þeir koma fram með ákveðnar athugasemdir eða ábendingar um hvernig hlutirnir megi betur fara. Það er þetta sem okkur vantar. Við þurfum að fá gagnrýnni umræðu og eiga skoðanaskipti sjálf og hvert við annað. Síðast en ekki síst þurfum við að læra að bera virðingu fyrir skoðunum annarra og þar verðum við öll að líta í eigin barm. Ef við ætlum að halda áfram á þeirri braut sem hér er mörkuð líst mér ekki á framhaldið. Ég verð bara að viðurkenna það, frú forseti.

Við erum að taka stórar ákvarðanir um mörg hundruð milljarða skuldbindingar þjóðarinnar og ég er skíthræddur við það mál. Ég hef af því miklar áhyggjur að við séum að leggja þvílíka klafa á þjóðina til framtíðar að við munum ekki rísa undir því. Það finnst mér líka mjög dapurlegt í ljósi þess sem gerðist fyrir rúmu ári. Þegar bankahrunið varð stóðum við í sömu sporum og í dag. Við virðumst ekkert ætla að læra.

Þá var sagt við okkur af mörgum aðilum, bæði sérfræðingum og öðrum: Ef fram heldur sem horfir mun allt fara á hliðina. Hver varð svo reyndin? Hér fór allt á hliðina. Það dapurlegasta við það er að við skyldum ekki hafa lært af því. Mjög margir þingmenn, margir sérfræðingar, sem hafa skoðað þessi mál, og almennir borgarar hafa verulegar áhyggjur af því sem gæti gerst ef við samþykkjum þá samninga sem nú liggur fyrir að verði samþykktir. Það er gríðarlega hættulegt að hunsa ábendingar og athugasemdir þessara góðu einstaklinga og gera þær að engu. Þess vegna segi ég, frú forseti: Við eigum að ræða hlutina málefnalega og af virðingu fyrir skoðunum annarra.

Ég er líka mjög hryggur yfir því að við skulum ekki standa saman sem þjóð. Við stöndum ekki saman í þessu máli. Við höfum aldrei gert það, aldrei sem ein heild. Ákveðin þverpólitísk samstaða náðist í vinnu fjárlaganefndar í sumar í ákveðinn tíma og það er dapurlegt að við skyldum ekki ná að nýta okkur það til þess að vinna þessu brautargengi.

Frú forseti. Þegar við lendum í vandræðum, sem fjölskylda, lítið sveitarfélag eða sem þjóð, er reyndin sú að við eigum að standa saman. Við eigum ekki að berast á banaspjót innbyrðis. Við eigum að standa saman. Þegar herjað hefur verið á okkur Íslendinga með óréttmætum hætti höfum við staðið saman og ég get nefnt mörg dæmi um það úr sögu landsins, landhelgisdeilurnar og þar fram eftir götunum.

Frú forseti. Ég kem úr litlu sveitarfélagi og þannig er það um allt land að þegar fjölskyldur verða fyrir áfalli heldur samfélagið utan um það fólk. Það er þetta sem okkur vantar að gera. Það er dapurlegt að þurfa að upplifa þetta hér. Ég bar þá von í brjósti að við mundum ekki vinna svona. Ég bar þá von í brjósti að við mundum standa saman af því það er klárlega verið að kúga íslenska þjóð í þessu máli. Það sem mér finnst dapurlegast er að ég get ekki stutt hæstv. ráðherra sem verða fyrir þessu. Ég vil fá að styðja við þá og berjast með þeim. Ég vil ekki berjast við þá. Ég vil berjast með þeim til þess að verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar því að það er jú það sem við eigum að gera.

En því miður lendum við í því að fara að berast innbyrðis á pólitísk banaspjót. Til hvers? Hvað gerist oft hérna, frú forseti? Það gerist með þeim hætti að þingmenn koma upp í ræðustól Alþingis í óundirbúnum fyrirspurnatímum og ræða ákveðin mál. Þeir spyrja spurninga og hvert liggur svo leiðin? Hún liggur fram í tölvurnar til þess að vita hvort þeir séu komnir inn á fréttamiðlana. Þannig eru vinnubrögðin og þetta á við þingmenn úr öllum flokkum. Mér finnst það mjög dapurlegt að við skulum enn vera í þessu við þær aðstæður sem nú eru. Nú er íslensk þjóð í vanda og við eigum að standa saman. Við eigum ekki að gera lítið úr skoðunum þeirra sem hafa stórar áhyggjur af því að þetta muni geta sligað okkur í framtíðinni. Við eigum ekki að gera lítið úr þeim. Mér finnst þetta afskaplega dapurlegt og ég er hryggur yfir þessu.

Nú þegar málið kemur til þinglegrar meðferðar langar mig að rifja upp hvernig þetta hefur gerst. Það er til umhugsunar fyrir okkur öll. Í byrjun júní átti nú ekki einu sinni að sýna samningana, þá fór öll vinnan í það að reyna að ná þeim fram. Það átti bara ekki að sýna þá, við áttum ekki að sjá þá. Nei, við eigum að gangast við skuldbindingum sem við vitum ekki hverjar eru. Ég hef ekki hugmynd um hvað þetta felur í sér frekar en nokkur hv. þingmaður eða hæstv. ráðherra hér inni. Það veit enginn hvað við erum að gera, ekki nokkur einasti maður. Samt ætlum við að gera það.

Í framhaldi af því náðist ákveðin pólitísk samstaða og við fórum að smíða fyrirvarana. Þá kviknaði ákveðin von í mínu brjósti um að við mundum ná að þroska þau vinnubrögð áfram. En því miður gerðum við það ekki. Við verðum, frú forseti, öll sem einn, að líta í eigin barm, sama í hvaða flokki við erum. Okkur ber skylda til þess við þær aðstæður sem íslensk þjóð er í núna, algjör skylda. Þetta er ekki þannig mál að menn eigi að vera í pólitískum slagsmálum. Það er nógur tími til að vinna pólitíska sigra og reyna að ná einhverjum höggum á andstæðingum, hvort þessi flokkur fær eitt, tvö, þrjú prósent meira eða minna í næstu kosningum. Þetta mál fjallar ekkert um það. Þetta fjallar um framtíðarmöguleika íslensku þjóðarinnar. Það fjallar um það.

Þegar búið er að samþykkja fyrirvarana á Alþingi er farið að kynna þá. Hvernig er það gert, frú forseti? Auðvitað var þessi samstaða ekki nýtt, það var passað upp á að eyðileggja það allt saman aftur. Hefði nú ekki verið skynsamlegra að fá alla stjórnarandstöðuna að og segja sem svo: Nú skulum við gera allt sem við getum og þið sjáið það þá bara sjálfir ef við komumst ekki lengra, sjáið nú með eigin augum þær kúgunaraðferðir sem eru hjá Bretum, Hollendingum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Evrópusambandinu og hverjum sem er, Norðurlandaþjóðunum. Sjáiði það? Upplifiði það? Þá geta menn tekið upplýsta ákvörðun allir sem einn og staðið svo saman og varið það. Það væri skynsamlegra. Nei, það var ekki gert, því miður.

Núna kemur málið aftur inn og ég er hugsi yfir því, og það hefur valdið mér miklum vonbrigðum, hvernig við unnum málið í framhaldinu. Ég held, frú forseti, ég ítreka það, að það sem hafi gerst hafi verið það að stjórnarþingflokkarnir tóku það og afgreiddu það í þingflokkum sínum áður en það kom inn í þingið, fyrr fékk málið ekki að fara inn í þingið. Ég held að það hafi gerst með þeim hætti. Í fyrra skiptið hafði málið verið tekið úr höndum stjórnarinnar, þeir komust ekki áfram með það. Ég er hræddur um að það hafi aldrei staðið til, nema innan gæsalappa, að málið fengi þinglega meðferð. Ég upplifði það þannig eftir að hafa unnið með því góða fólki sem starfar í fjárlaganefnd. Í öllum stjórnmálaflokkum er mikið af góðu fólki, í hverjum einasta stjórnmálaflokki er mikið af góðu fólki og það er mikilvægt að við umgöngumst hvert annað út frá þeirri hugsun. Við eigum að bera virðingu hvert fyrir öðru.

Þegar búið var að taka málið inn í fjárlaganefnd var óskað eftir umsögn frá efnahags- og skattanefnd um efnahagslega þáttinn í málinu vegna þess að gjörbreyting varð á efnahagslegu fyrirvörunum sem átti að verja okkur akkúrat fyrir því sem mundi geta gerst. Það sem gerist í framhaldi af því voru mér mikil vonbrigði. Nefndin skilaði fjórum álitum, mjög góðum fjórum álitum. Þau voru aldrei rædd í fjárlaganefnd. Aldrei. Málið var tekið út í óþökk minnihlutans og ég benti mínum ágætu vinum þar á að það væru ekki skynsamleg vinnubrögð. Við hefðum átt að reyna að ræða málin. Var eitthvað sem við gátum sameinast um að gera og reynt að koma þessu aftur í þann farveg sem við vorum? Nei, það var því miður ekki nein stemning fyrir því og enginn vilji til þess. Þess vegna, frú forseti, held ég að þetta mál hafi nefnilega aldrei átt að fá hina eðlilegu þinglegu meðferð, þótt málið sé auðvitað í meðferð þingsins. Ég held hins vegar að það hafi verið búið að ganga frá því í stjórnarflokkunum áður en það kom inn í þingið. Og allur skrípaleikurinn í kringum það allt saman er alveg hreint með ólíkindum. Og alveg hreint með ólíkindum að upplifa það að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn komi upp í ræðustól og haldi því fram að fyrirvararnir séu jafnvel betri eftir að þeir komu til baka, eftir að Hollendingar og Bretar voru búnir að pexa við þá um fyrirvarana. Þeir væru jafnvel betri eftir það. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega? Á að bjóða manni upp á þetta? Nei. Ég hefði viljað fá hv. þingmenn og hæstv. ráðherra til að færa þá rök fyrir því hvað hefði breyst í fyrirvörunum, til að koma þá þeirri skoðun sinni á framfæri að þetta væri með þeim hætti. Nei, það var ekki þannig. Það var bara sagt: Þeir eru bara betri og hafa styrkst við þetta.

Meira að segja gekk hæstv. utanríkisráðherra svo langt að hann sagði um t.d. Ragnars Halls-fyrirvarann, að hann væri bara miklu sterkari eftir þetta. Miklu sterkari, þó að Ragnar H. Hall hafi sagt sjálfur að búið væri að tæta hann niður. Þetta er alveg hreint með ólíkindum. Þetta veldur mér miklum áhyggjum.

Síðan þessi skrípaleikur með það að þegar forustumenn ríkisstjórnarinnar — ég þarf aðeins að rifja það upp — þegar búið var að setja fyrirvarana eftir alla vinnu Alþingis sögðu margir: Núna er náttúrlega búið að gjörbreyta málinu, nú er búið að tryggja íslenska þjóð. En þá sögðu hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. forsætisráðherra: Nei, nei, nei, þetta rúmast allt innan fyrirvaranna, þetta er bara nákvæmlega sama málið. Ekkert vandamál. Þingið var ekki að gera neitt. Þetta er svona aðeins að flikkað til, það rúmast allt innan fyrirvaranna og við förum og kynnum þá, það eru engin vandamál. En svo sjáum við hvað kemur til baka. Nákvæmlega svona eins og þetta er. Algjörlega handónýtt mál. Maður hefur stórar áhyggjur af þessu. Þetta er alveg hreint með ólíkindum.

Og svo þessi farsi, af því ég nefndi hvernig væri stundum að vera hérna í þinginu. Ég upplifi það þegar þingmenn fara í pontu og segja eitthvað sniðugt og einhver fylgist með því, þá er hlaupið með það í netmiðlana. Þá langar mig líka til að minnast, frú forseti, á þennan spunaleik allan í kringum þetta. Hvað gerist? Það sem gerist er að hv. þm. Ögmundur Jónasson segir af sér ráðherraembætti. Hvers vegna sagði hann af sér ráðherraembætti? Það var vegna þess að ríkisstjórnin var gjörsamlega óhæf til að vinna nokkur verk. Hún vann ekki verkin eins og honum þóknaðist. Að sjálfsögðu styður hann ríkisstjórnina en getur ekki setið í henni. Þá kemur hæstv. utanríkisráðherra og segir: Afsögn þessa ágæta manns styrkti málið auðvitað til muna. Þá hrukku Bretar og Hollendingar við og gerðu sér grein fyrir því að mjög miklar pólitískar deilur væru hér út af þessu máli. Það gæti haft afleiðingar fyrir íslenska þjóð. Þá velti ég því fyrir mér, frú forseti, af hverju Bretar og Hollendingar höfðu þær áhyggjur. Höfðu þeir kannski áhyggjur af því að það kæmi ný ríkisstjórn? Voru það kannski þær áhyggjur sem þeir höfðu eða að einhver önnur áhrif kæmu fram sem tækju fastar á málunum? Ég velti því fyrir mér.

Ég verð að segja, frú forseti, að þetta mál hefur valdið mjög miklum deilum. Af því ég sé að hæstv. fjármálaráðherra er kominn í salinn ætla ég að segja við hann því að ég sagði hér í upphafi að það sem við þurfum að gera núna er að standa saman, við þurfum að berjast saman. Ég vil ekki berjast við hæstv. fjármálaráðherra í pólitísku stríði. Ég vil standa með honum sem Íslendingur og berjast fyrir málstað okkar Íslendinga. (Fjmrh.: Ég er nú Íslendingur líka.) Já, ég veit það, hæstv. fjármálaráðherra, þú ert það líka. En það sem ég er að segja er þetta: Við eigum að standa saman. Við eigum ekki að vera ofan í pólitískum skotgröfum. Það er bara þannig. Hvorki þú né ég. (Fjmrh.: Ég heyri það.) Já.

Við þurfum að læra af þessu máli, líka til að breyta því. Það er nefnilega þannig, frú forseti, að þetta er ekki þannig mál að við getum breytt því aftur á morgun eða eftir eitt ár eða breytt lögum. Þetta er mál sem varðar marga áratugi fram í tímann.

Ég segi það enn og aftur, frú forseti, að ég er logandi hræddur við þetta. Ég er logandi hræddur. Ég ætla hins vegar að taka það skýrt fram að ég ætla ekki neinum, hvorki hv. þingmönnum né hæstv. ráðherrum, að taka ákvörðun um eitthvað í sambandi við þetta mál sem er ekki gert á réttum forsendum. Ég ætla ekki hæstv. ráðherrum eða hv. þingmönnum að greiða hugsanlega atkvæði með frumvarpinu á öðrum forsendum en þeim en að þeir séu búnir að telja sér trú um að þetta sé hið eina rétta í málinu. Ég ætla engum það og ætla ekki að brigsla neinum um landráð eða hvað sem menn nota og ég hef ekki notað það hér. Ég hef ekki notað það í þessum ræðustól.

En fyrst og fremst, virðulegi forseti, þurfum við að læra að standa saman og berjast á móti því óréttlæti sem við höfum verið beitt. Það hefur margoft komið fram. Kúganir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sagt bæði óbeint og beint og alla vega, Norðurlöndin og allt þetta. Það er hver að hugsa um rassgatið á sjálfum sér. Þeir hafa engar áhyggjur af okkur. Ég get ekki séð það. Þeir hafa engar áhyggjur. Reyndar hefur það komið fram á undanförnum dögum að miklar umræður eru á hollenska þinginu einmitt vegna þess að menn hafi haft mjög miklar áhyggjur af því að þeir klafar sem verið er að setja á íslenska þjóð með umræddum samningi muni geta sligað hana þannig að hún geti ekki staðið undir greiðslunum.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég er mjög hugsi yfir þessu öllu saman. En fyrst og fremst þurfum við að læra af þessu og við þurfum að standa saman um hvernig þetta er gert.

Síðan finnst mér mjög merkilegt og mjög sérkennilegt að við skulum ekki hafa lært af hruninu, breytt vinnubrögðum og tekið mark á varnaðarorðum, sama hvaðan þau koma. Við verðum að gera það, bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Þau vinnubrögð að taka þetta úr nefndunum voru ekki nógu góð. Þau voru ekki nógu góð. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að hefðum við tekið umræðu um þetta í fjárlaganefnd, hefðum við tekið eðlilega umræðu og rætt t.d. álit efnahags- og skattanefndar, sem voru ekki nema fjögur, þá hefði ég verið rólegur og getað rætt við þetta fólk. Ég hef ekki getað rætt við það fólk sem skilaði nefndarálitum, t.d. hv. þingmenn Lilju Mósesdóttur og Ögmund Jónasson, sem skiluðu mjög góðu áliti. Þar komu fram mjög mörg varnaðarorð. Ég hefði viljað ræða við þá hv. þingmenn í fjárlaganefnd um hvað kom fram í því áliti því að mjög margar góðar upplýsingar eru þar og reyndar í öllum þessum álitum.

Frú forseti. Ég er mjög dapur yfir því að við skyldum ekki bera gæfu til þess að vinna málið eins og við byrjuðum með það í sumar og hefðum átt að ná að klára það.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði raunar að tala í örfáar mínútur áður en ég kæmi að ræðunni minni en ég sé það núna að ég er búinn með ræðutímann án þess að hafa byrjað á ræðunni. Ég verð því eiginlega að biðja þig að setja mig á mælendaskrá aftur.