138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:49]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson erum sammála um það, eða eins og ég skil mál hans, að þingræði Íslands sé veruleg hætta búin með þessum vinnubrögðum og eins kannski dómstólum landsins, ef þeim er ekki treystandi.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í þær fréttir sem hafa borist af Evrópuþinginu. Það var t.d. frétt á Pressunni í gær þar sem eru frásagnir af því að Evrópuþingið þrýsti á Alþingi að klára Icesave af því að annars sé aðildarumsóknin í hættu. Telur hv. þingmaður að það séu tengsl á milli ESB og Icesave-málsins og hver eru þau tengsl að hans mati?