138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég er algjörlega ósammála hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og hv. þm. Pétri H. Blöndal því að það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðina að losna við þessa handónýtu ríkisstjórn. Svo halda hv. þingmenn því fram að þetta sé einhver velferðarstjórn. Auðvitað er þetta engin velferðarstjórn. Þetta er gjörsamlega handónýt ríkisstjórn. En ég hef hins vegar sagt í þessum ræðustól eins og margir aðrir að mjög mikilvægt er að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því að hún þarf ekki að fella sig sjálf á þessu máli en gagnvart öllum öðrum málum er mjög mikilvægt að losna við hana því að hún er algjörlega handónýt.

Hv. þingmaður nefndi og fór töluvert yfir efnahagslegu fyrirvarana. Nú er náttúrlega búið að aftengja þá að því leyti til að við munum alltaf þurfa að greiða vexti þó svo við greiðum áfram þessi 6% af vexti hagvaxtar. Hann kom réttilega inn á það að nefndarálitin, sem efnahags- og skattanefnd skilaði til fjárlaganefndar, voru aldrei rædd þar og ég kom inn á það í ræðu minni fyrr í dag. Þar minntist ég á að hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson hefðu einmitt bent á í nefndaráliti sínu að það sé of mikil skuldsetning fyrir íslenska þjóð að taka á sig þessar Icesave-skuldbindingar og ef menn ætla að gera það verða þeir að gera sér grein fyrir að þá munu menn þurfa að skera mjög harkalega niður í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Það munu þá verða afleiðingarnar af því. Í áliti þeirra telja þau að það sé algjörlega útilokuð leið.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeim áhyggjum með þessum hv. þingmönnum og mér og fleirum, að þetta muni leiða það af sér að ef við göngum að þessum afarskilyrðum og lendum í einhverjum dýfum þurfum við að skera niður. Nú erum við að byrja að skera niður í ríkisútgjöldunum. Það mun verða (Forseti hringir.) erfitt ef litið er langt til framtíðar að halda því áfram.