138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kjarnaspurning. Þetta snýr í rauninni ekki að því sem hv. þingmaður spyr um. Spurningin er: Sögðu forustumenn ríkisstjórnarinnar satt? Ég las áðan upp ummæli hæstv. forsætisráðherra sem sagði: Ég kvíði því ekki neitt að ræða þessi mál. Hæstv. forsætisráðherra sagði líka: Þetta rúmast innan ramma samkomulagsins. Og það sagði einnig hv. þm. Guðbjartur Hannesson og forustumenn ríkisstjórnarinnar. Það er það sem þeir sögðu.

Niðurstaðan er sú að annaðhvort var verið að segja ósatt eða kenning hv. þingmanns er rétt, sem ég tel vera, að þeir hafi aldrei haft eina trú á þessu máli. Hv. þingmenn stjórnarliðsins skulda skýringar. Ég bað þá um að fara í andsvar við mig en þeir urðu ekki við því. Þeir skulda svör við þessum spurningum. Hvað voru þeir að hugsa þegar þeir sögðu þetta í sumar? Vissu þeir ekki hvað þeir voru að segja eða voru þeir að segja ósatt? Ég spurði hv. þm. Guðbjart Hannesson að þessu áðan en hann treysti sér ekki í andsvar til að fara yfir þetta.

Gott og vel. Stóra málið er það að ekki voru öll tæki notuð til að kynna málstað Íslendinga, það er algerlega ljóst. Annaðhvort vissu menn ekki betur þegar þeir voru með yfirlýsingar um að þetta væri innan ramma samkomulagsins í sumar eða þeir sögðu ósatt. Svo einfalt er það. Það er alla vega alveg ljóst að ef menn hafa trúað því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri innheimtustofnun fyrir Evrópusambandið og Breta og Hollendinga þá gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn okkur gott tækifæri til að segja að þeir væru ekkert að meina í því því að skýr yfirlýsing kom frá forustumönnum þeirra.

Virðulegi forseti. Aðalatriði málsins er þetta: Ekki hafa komið fram nein efnisleg rök fyrir því að við séum að breyta þeim lögum sem eru í gildi um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna.