138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti upplýsir að hæstv. forsætisráðherra hafi verið hér örlítið í morgun og að hér sé hæstv. fjármálaráðherra. Ég tek skýrt fram að ég geri engar athugasemdir við viðveru hæstv. fjármálaráðherra í þingsal undir þessari umræðu. Hann hefur setið hér (Gripið fram í.) lengst af enda tel ég að mörg atriði í þeim sjónarmiðum og ræðum stjórnarandstæðinga sem hafa talað gefi tilefni til þess að hæstv. fjármálaráðherra svari.

Varðandi aðra ráðherra vildi ég ítreka það sem ég sagði um bæði hæstv. forsætisráðherra, sem vonandi kemur þá aftur í hús þegar líður á daginn, og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, það er alveg ljóst að í þingræðum hafa komið fram spurningar sem varða málefnasvið þessara hæstv. ráðherra. Ég get sagt fyrir sjálfan mig að ég hef áhuga á því að eiga orðastað við þessa hæstv. ráðherra síðar í dag. Ég óska eftir því að hæstv. forseti (Forseti hringir.) geri þeim viðvart að þeir megi eiga von á spurningum úr þessum ræðustól.