138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Ég tek undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur að það kemur margt mjög athyglisvert fram í grein hv. þm. Ólafar Nordal og ég hvet fólk til að lesa þennan pistil í Pressunni. Hann dregur líka fram að við þurfum að fara varlega. Þetta er enn einn þátturinn þar sem sagt er við okkur á þinginu: Farið varlega, sýnið ábyrgð, skoðið alla þætti málsins. Þessi þáttur varðandi Dúbaí getur líka haft mikil áhrif og óbeinar afleiðingar hingað heim, afdrifaríkar afleiðingar hingað heim. Eins og við vitum eiga Bretar náttúrlega mikilla hagsmuna að gæta í Dúbaí og það getur haft áhrif á efnahagslífið þar.

Ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður dregur fram, Eygló Harðardóttir, að hér er um mjög óvenjuleg vaxtakjör að ræða, ef maður hefði hugsað það að þetta væri pólitískur samningur hefðu vaxtakjörin átt að vera lægri og sanngjarnari og það er svo sannarlega það sem við höfum dregið fram á undanförnum dögum. Við höfum dregið það fram að það hefði allt eins verið betra að við værum með breytilega vexti og það sem við vorum líka að biðja um, að við værum einfaldlega að fá sanngjörn vaxtakjör líka, svipuð vaxtakjör og Bretar fá lánin sín á. Það er fjarri lagi að svo sé í þessum samningi, enda veit hv. þingmaður það náttúrlega og kann þetta mál aftur á bak og áfram. Menn sjá það alveg greinilega að Bretar og Hollendingar eru að knýja okkur til að borga upp í topp, fá alla vexti, forgangskröfur, allt til sín. Þeir stórgræða á málinu öllu.