138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka spurninguna og túlkun hv. þingmanns á ræðu minni og mér þykir vænt um hvernig hún sá hana því að það er alveg hárrétt, þetta er brýning. Þetta er brýning og áminning um að við verðum standa saman. Við höfum kallað eftir því frá fyrsta degi og ég hef heyrt þær raddir líka frá fleirum en bara Hreyfingunni, hjá fólki á þinginu, að við höfum kallað eftir samvinnu. Við höfum kallað eftir því að fá að vinna að þessum málum saman hvort sem það er Icesave eða skattamálin eða hvað sem er. Það hefur verið, ég verð að viðurkenna það, sárt að upplifa leynihyggjuna og það að hlutunum sé slengt hérna fram á síðustu stundu og þá er okkur boðið, þegar búið er að taka allar ákvarðanirnar, að taka þátt.

Ég skora á ríkisstjórnina og stjórnarliða að breyta þeim starfsháttum og ég held að fyrsta leiðin til þess sé að við þingmenn gerum það. Við eigum ekki að bíða eftir að hæstv. ríkisstjórn geri það. Við eigum að breyta því, það er okkar að breyta því. Ég hef alveg fulla trú á því að við gætum það ef við mundum setja saman fimm manna þingmannahóp, þvert á flokka, sem færi út til að kynna stöðu okkar og ræða um Icesave. Við getum komið okkur saman um hvernig við viljum kynna það, við þurfum ekki að fara út sundruð heldur einmitt sameinuð. Ég held að það mundi hafa gríðarlega mikið að segja, ég held að það mundi skipta sköpum.

Við eigum að gera þetta núna, við eigum ekki að bíða. Ég er hef beðið um þetta í viku eftir að ég fékk það tilboð um að við yrðum aðstoðuð við að setja svona fundi saman á breska þinginu. Mér finnst vont hvernig andsrúmsloftið er orðið á milli þessara þjóða, Breta, Hollendinga og Íslendinga, en jú, vissulega held ég að það megi með sanni segja að það sé aldrei of seint.