138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vona að mér gangi betur núna að ávarpa hæstv. forseta en fyrr í kvöld. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í eitt atriði en vil segja í upphafi að mér fannst heldur dauf ræðan hjá hv. þingmanni, mér fannst hann alveg geta haft aðeins meira skap í henni eins og ég þekki til hans úr þessum ræðustól og vona að ég eigi eftir að sjá meira neistaflug frá hv. þingmanni. (Gripið fram í.)

Það sem ég ætlaði að spyrja hér um er það mál sem hann kom inn á í ræðu sinni. Hann vitnaði í orð hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag þar sem fram kom að hægt væri að styðja með skriflegum gögnum þá gíslingu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist hafa verið í vegna þessa Icesave-máls. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ástæðu til að þessi skriflegu gögn verði gerð opinber til að það fari ekkert á milli mála um hver hélt hverjum í gíslingu, hverjir beittu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í þeim þvingunum sem hann hefur verið beittur og þá um leið að gefa í raun Alþjóðagjaldeyrissjóðnum færi á því að leiðrétta málið.

Við þekkjum öll svar framkvæmdastjóra gjaldeyrissjóðsins við bréfi Gunnars Sigurðssonar leikstjóra. Ég vil meðal annarra orða þakka þeim borgurum sem sendu það bréf fyrir framtak þeirra en mig langar að spyrja hv. þingmann út í þessi gögn.