138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við fögnum því öll að sjálfur hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra er mættur til leiks. Hann hlustaði að vísu á einhverja aðra ræðu en ég þegar hv. þm. Illugi Gunnarsson talaði. Ég heyrði ekki það sem hæstv. ráðherra heyrði. En af því að hæstv. ráðherra er að ræða um efni máls þá fagna ég því. Ég bíð spenntur eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra félags- og tryggingamála komi og ræði efni málsins og taki þátt í umræðunni þegar kemur að efni máls.

Það hefur verið upplýst að hæstv. ráðherrar hafa gert sig seka um í besta falli að misskilja málið eða þekkja það ekki, halda það í fullri alvöru að fyrirvararnir sem við samþykktum í sumar séu inni, sem gerði málið þá allt óþarft. Ég bíð spenntur eftir því að hæstv. ráðherra komi og tali um þetta mál, annað getur ekki verið, ekki talar hann hér eingöngu um fundarstjórn forseta.