138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:19]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mig langar að endurtaka að einhverju leyti fyrri spurningar mínar um fundarstjórn á þessum fundi og lengd hans. Nú liggur fyrir að nefndarfundur hefst klukkan hálfníu. Í framhaldi af því hefst þingfundur klukkan hálfellefu og í framhaldi af því aðrir fundir.

Ég fæ t.d. á minn fund klukkan eitt á morgun fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Mark Flanagan og Franek Rozwadowski. Það verður áhugavert að ræða Icesave-málið við þá og hvaða álit þeir hafa á því. Ég mun náttúrlega benda þeim á þegar ég sit rauðeygður fyrir framan þá hvers vegna svo er og fæ kannski bút úr reynsluheimi þeirra og samstarfi við önnur þjóðþing hvort þessi vinnubrögð á Íslandi þyki eitthvert einsdæmi. Ég hef aldrei lent í öðrum eins asnalegum vinnubrögðum og ég hvet forseta einfaldlega til að fresta þessum fundi.