138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

staðan á fjölmiðlamarkaði.

[10:48]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka starfandi menntamálaráðherra fyrir þetta ágæta svar hans og ítreka að nú um stundir er ákaflega mikilvægt, svo ekki sé meira sagt, að starfandi séu frjálsir og ábyrgir fjölmiðlar í þessu landi sem geta um frjálst höfuð strokið og sinnt rannsóknar- og upplýsingahlutverki sínu eins vel og nokkur kostur er við þær efnahagsaðstæður sem við búum við.

Mig langar að spyrja starfandi menntamálaráðherra hvort hann telji í ljósi þessarar nýju þróunar hvort huga þurfi að einhverjum breytingum á væntanlegu fjölmiðlafrumvarpi einmitt í ljósi þeirrar stöðu sem ég nefndi áðan, að tvö stærstu dagblöð landsins eru einmitt í eigu, rekin og stjórnað af lykilpersónum í efnahagshruninu, sumir segja höfundum hrunsins.