138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

hækkun tryggingagjalds og afkoma sveitarfélaga.

[10:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þann 1. júlí sl. var tryggingagjaldið hækkað um 1,66% sem þýddi að lagðar voru miklar og auknar álögur á atvinnulífið og fyrirtækin og sveitarfélögin í landinu. Hækkunin á sveitarfélögunum út af hækkun tryggingagjaldsins árið 2009 eru 650 millj. og kostnaðurinn af því fyrir árið 2010 er um 1,3 milljarður þannig að samtals er verið að hækka álögur á sveitarfélögin í landinu um 2 milljarða. Þegar hæstv. fjármálaráðherra kynnti þetta í fjárlaganefnd spurði ég sérstaklega að því hvort það yrði ekki leiðrétt gagnvart sveitarfélögunum. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði því að það yrði gert, sem næmi þeirri hækkun sem ríkið tæki til sín frá sveitarfélögunum.

Eftir að við sátum fund í hv. samgöngunefnd í gær kom það í ljós hjá forustumönnum sveitarfélaganna að jafnvel stæði til af hálfu ríkisins að standa ekki við þessi fyrirheit. Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvar þetta mál stendur, hvort átt hafi sér stað nokkrar viðræður um hvernig þetta er gert eða hvort það sé réttur skilningur hjá forustumönnum sveitarfélaganna að jafnvel standi til að leiðrétta þetta ekki. Ég vil bara árétta það, virðulegi forseti, að eftir að mörg sveitarfélög fóru sl. haust í mjög miklar aðhaldsaðgerðir í rekstri sínum fyrir þetta ár voru allar þær sparnaðaraðgerðir sem sveitarfélögin fóru í teknar út með einu pennastriki af hálfu ríkisvaldsins, þ.e. hækkun tryggingagjaldsins tók út allar sparnaðartillögur sveitarfélaganna. Það er því mjög mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra standi við að þetta verði leiðrétt gagnvart sveitarfélögunum. Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ekki sé kominn tími til að fara að kostnaðarreikna frumvörp sem lögð eru fram með það að markmiði að vita hvaða áhrif það hefur t.d. á tekjustofna og tilfærslur á tekjum milli sveitarfélaga og ríkisins.