138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:55]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt nú þriðju ræðu mína, fjórðu ræðu í þessari umferð Icesave-málsins. Ég hef áður fjallað um vextina á þessu ólukkans láni og þau mistök samninganefndarinnar að velja fasta vexti í staðinn fyrir breytilega vexti og hvernig þau mistök geta kostað okkur allt að 100 milljörðum króna. Ég hef fjallað um efnahagsumhverfið í heiminum sem undirbýr það að allar líkur eru á því að breytilegir vextir verði lágir í nánustu framtíð. Ég fjallaði um raungengið sem mat Seðlabankans byggir á, hér í nótt, og sýndi fram á að það væri óraunhæft að ætla það að raungengi yrði jafnlágt og þar er gengið út frá. Og jafnframt að ef það raungengi rætist mun það geta leitt til stórfelldrar mannfækkunar á Íslandi vegna þess að þá munu lífskjör verða mjög slæm í samanburði við nágrannalöndin.

Í dag ætla ég að tala um hagvaxtarforsendur Seðlabankans. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að hagvöxtur á næstu árum, jafnlangt og við eygjum raunverulega, verði mjög hár, verði í kringum 3% að meðaltali næstu 10 árin, minnir mig að það sé. Inni í þessari tölu er hinn gríðarlegi samdráttur sem á sér stað á þessu ári, sem er kringum mínus 8–9% og því verður hagvöxturinn að vera þess meiri á seinni hluta tímabilsins.

Það er ekki úr vegi að fara aðeins yfir þær forsendur sem Seðlabankinn gefur sér í hagvaxtarspá sinni og reyndar ætti ég kannski að taka það fram að þegar kemur að hagvexti tel ég að ég hafi einhverja innsýn í það mál þar eð ég skrifaði doktorsritgerð mína um hagvöxt og er prófessor í þjóðhagfræði og var með hagvöxt sem sérgrein.

Hvað er hagvöxtur? Hagvöxtur er vöxtur vergrar landsframleiðslu frá einu ári til annars. Það segir mörgum ekki mikið. Það er því ekki úr vegi að útskýra hvað verg landsframleiðsla er. Verg landsframleiðsla er einfaldlega summa eftirspurnar í þjóðfélaginu og viðskiptajafnaðar. Og hvað er eftirspurn í þjóðfélaginu? Jú, það eru ríkisútgjöld að viðbættri einkaneyslu, að viðbættri fjárfestingu, að viðbættum viðskiptajöfnuði. Ef maður horfir á þetta hugtak, landsframleiðslu, frá þessari hlið þá er nokkuð einfalt að rekja sig í gegnum það hversu miklar líkur eru á þeim mikla hagvexti sem Seðlabankinn spáir og þeim forsendum sem stjórnarliðar virðast gefa sér í því að hér verði allt í lukkunnar velstandi í framtíðinni vegna þess að hagvöxtur muni standa undir tekjuaukningunni sem þarf til þess að borga af þessu ólukkans láni.

Ef við förum í fyrsta liðinn í landsframleiðslunni, þ.e. í útgjöld hins opinbera, er algjörlega ljóst að vaxtabyrðin á Icesave-lánunum mun draga útgjöld frá annarri starfsemi hins opinbera, þ.e. það verður ekki varið jafnmiklu til velferðarmála. Það verður ekki varið jafnmiklu til heilsugæslu, það verður ekki varið jafnmiklu til framkvæmda o.s.frv. vegna þess að of stór hluti ríkisútgjaldanna fer í að standa undir vöxtum.

Það hefur verið reiknað út að vextir af Icesave-láninu geti numið allt að 40 milljörðum, verði á bilinu 35–40 milljarðar á næsta ári. Þær tekjur verða einhvers staðar að koma frá, eða þá að það verður að spara fyrir þessu. Það verður eflaust sambland af því eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu þar sem bæði er skorið niður og skattar auknir. Hagvöxturinn mun því ekki koma frá ríkisútgjöldunum í framtíðinni.

Þá víkur að einkaneyslunni. Einkaneysla hefur fallið gríðarlega mikið núna eftir kreppuna og er einn aðalliðurinn í því að draga saman hagvöxtinn á þessu ári. Það er ljóst að vegna þess sem ég var að nefna áðan, þ.e. að ríkið þarf mun meiri tekjur en það hefur áður haft, á að skattleggja einkaneysluna, það eru tekjur fólks sem eru notaðar til einkaneyslu, það eru óbeinir skattar og annað slíkt og hér hafa verið lögð fram þrjú frumvörp sem öll fjalla um hvernig ríkið ætlar að taka meira til sín en áður. Einkaaðilar munu þá ekki geta notað jafnmikið af fjármunum sínum í einkaneyslu og áður var. Aukinn hagvöxtur kemur því ekki frá einkaneyslunni.

Þá er þriðji liðurinn sem er fjárfesting. Það er bæði innlend og erlend fjárfesting. Fjárfesting er í lágmarki á Íslandi eins og stendur vegna þess að efnahagsreikningi fyrirtækjanna er þannig háttað nú eftir hrunið að megnið af fyrirtækjum í landinu er tæknilega gjaldþrota og nýtur ekki lánstrausts í bankakerfinu enda er bankakerfið fullt af peningum sem ekki er hægt að lána út. Bankastarfsemi á Íslandi í dag felst með öðrum orðum í að taka á móti sparnaði, leggja hann inn á reikning í Seðlabankanum og hirða vaxtamismuninn.

Það er því ólíklegt að á næstu árum muni verða miklar fjárfestingar hjá einkafyrirtækjum, auk þess sem þau munu tæpast geta fjármagnað sig erlendis, ný fjárfestingatæki færu erlendis vegna þess hvernig lánstrausti landsins er háttað.

Þá víkur að erlendri fjárfestingu. Núverandi stjórnarflokkar hafa lagt metnað sinn í að koma upp eins háum girðingum fyrir erlenda fjárfestingu og hugsast getur. Það er gert með óstjórn í efnahagsmálum, óvissu í efnahagsmálum, óvissu í skattumhverfinu o.s.frv. Auk þess sem það hafa verið settir á eða eru tillögur um að setja á nýja skatta sem munu hefta erlenda fjárfestingu. Ef við lítum svo á fjárfestingarhluta þessa alls þá mun hagvöxturinn tæpast koma þaðan á næstu árum.

Víkur þá að seinasta liðnum sem er viðskiptajöfnuðurinn. Seðlabankinn hefur sýnt fram á í útreikningum sínum að megnið af hagvexti mun koma þaðan. Það er gert ráð fyrir að á næstu 10 árum verði viðskiptajöfnuður að meðaltali 163 milljarðar, sem ég rakti í löngu máli í ræðu í nótt að fengi ekki staðist vegna þess að forsenda fyrir þessum mikla viðskiptajöfnuði er mjög lágt raungengi og sterk samkeppnisstaða Íslands og lök lífskjör Íslendinga miðað við þjóðirnar í kringum okkur.

Það sem ég sagði þar var að ef þetta verður raunin munum við horfa fram á stórkostlega fólksflutninga sem lækkar alla hina liðina líka. Hagvöxturinn sem má rekja þarna til útflutningsaukans er þar af leiðandi byggður á óskhyggju og væntingum um raungengi sem fær ekki staðist, útflutning sem fær ekki staðist og innflutning sem fær ekki staðist.

Mat mitt á þeim hagvaxtaforsendum sem Seðlabankinn notar í þeirri greinargerð sem meiri hlutinn byggir mat sitt á fær tæpast staðið.