138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég ætla aðeins í framhaldi af andsvörum hjá hv. varaformanni fjárlaganefndar að vitna í þessa grein, Stjórnarskráin og Icesave-samningarnir, sem verið var að ræða, með leyfi forseta:

„Einnig má halda því fram að verið sé að ganga á lýðræðislegan rétt kjósenda með því að binda hendur Alþingis gagnvart erlendum ríkjum til ófyrirsjáanlegrar framtíðar við skuldbindingar sem geta reynst þjóðarbúinu ofviða og eru þar að auki líklega umfram lagaskyldu. Slíkt fær vart staðist 1. gr. stjórnarskrárinnar um löggjafarvald Alþingis. Í stuttu máli má halda því fram með fullum rökum að verið sé að skerða fullveldi ríkisins umfram það sem stjórnarskrá heimilar.“

Svo það liggi alveg fyrir hver eru orð þessara lögspekinga. Þeir eru alla vega tilbúnir til að leggja sitt mat fram fyrir alþjóð á prenti og væri óskandi að hluti þeirra lögfræðinga sem mættu fyrir fjárlaganefnd hefði verið tilbúinn að leggja fram sitt mat á þeim vafaatriðum sem þeir hafa nefnt, að Icesave stangist hugsanlega á við þrjár greinar stjórnarskrárinnar, líka skriflega þannig að alþjóð og þingmenn sem ekki sitja í fjárlaganefnd hefðu þá getað metið það út frá rökum sem þegar komu fram og þeim sem þeir síðan leggja fram.

Ég ætla hins vegar ekki með þessari ræðu að ræða sérstaklega um stjórnarskrána, það verður að koma seinna í annarri ræðu. Hins vegar ætla ég að ræða um fyrirvarana frá því 28. ágúst. Ég, eins og aðrir framsóknarmenn, sat hjá við afgreiðslu á fyrirvörunum vegna þess að ég taldi að þó að þetta væri hörmulegur samningur og ég væri mjög ósátt við samþykktina hefðum við gert samninginn alla vega bærilegri fyrir Íslendinga með fyrirvörunum og tók m.a. þátt í því að semja efnahagslegu fyrirvarana með þeim hópi sem gerði það. Mig langar aðallega til að einbeita mér að efnahagslegu fyrirvörunum og fara þá í seinni ræðu minni í þau lagalegu vafaatriði sem aðrir innan þingflokks framsóknarmanna einbeita sér frekar að, þá sérstaklega hv. þm. Höskuldur Þórhallsson.

Með fyrirvörunum er lagt til að ríkisábyrgðin afmarkist ekki einvörðungu við ákvæði lánasamninganna, eins og segir í frumvarpinu, heldur einnig af þeim fyrirvörum sem samþykktir voru á Alþingi og stóð í fyrirvörunum að þeir yrðu því óaðskiljanlegur hluti ríkisábyrgðarinnar. Í framhaldsnefndaráliti á milli 2. og 3. umr., þar sem við framsóknarmenn höfðum áhyggjur af því að þessir fyrirvarar gengju ekki nógu langt, sagði að skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar væri að lánveitendum yrðu kynntir fyrirvarar við ríkisábyrgðina samkvæmt lögunum og þeir féllust á þá. Tilgangurinn væri að tryggt yrði að lánveitendurnir væru bundnir af fyrirvörunum af ágreiningur risi um túlkun samninganna.

Með þessum orðum hefði átt að vera algerlega ljóst að ekki var verið að veita framkvæmdarvaldinu heimild til að endursemja þá fyrirvara sem Alþingi hafði samþykkt með lögum. Lögin áttu ekki að leiða til þess að Alþingi stæði frammi fyrir því að breyta sinni eigin ákvörðun tæplega þremur mánuðum síðar. En það var töluverð umræða um það í sumar hvort fyrirvararnir stæðu eins og þeir væru, annaðhvort gætu Bretar og Hollendingar samþykkt þá eða þá þetta lán yrði ekki tekið. Formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, benti ítrekað á að það væri stórhættulegt fyrir okkur að túlka fyrirvarana sem nýtt samningstilboð. Ef við gerðum það ættum við að sjálfsögðu að setja fram okkar allra ýtrustu kröfur en ekki eins og maður upplifði þetta í sumar þar sem rifist var um það langt fram á nætur, nótt eftir nótt, hvernig þetta ætti nákvæmlega að vera orðað. Tilfinningin var stundum sú, alla vega gagnvart öðrum stjórnarflokknum, að hann væri mjög harður í því að reyna að dempa þessa fyrirvara eins og mögulega var hægt. Prósentur breyttust um miðja nótt án þess að nokkrar forsendur væru fyrir því og það kom raunar aldrei skýring á því af hverju það var ekki samþykkt sem hópurinn lagði til varðandi efnahagslegu fyrirvarana, með einni undantekningu.

Ég ætla líka að nefna, af því að ég gagnrýndi í fyrri ræðu minni störf samninganefndarinnar og ríkisstjórnarinnar frá því í sumar, að mér finnast fyrirvararnir og þeir viðaukasamningar sem við fjöllum um núna vera sönnun á því að samninganefndin og stjórnvöld stóðu sig alls ekki í stykkinu. Þarna erum við komin með sönnunargagnið. Ég mundi telja að fyrirvararnir séu betri en þetta frumvarp en það er þó betra en upprunalegi samningurinn. Það sýnir að þegar menn komu með samninginn upprunalega inn í þingið í sumar hefði verið hægt að semja betur strax þá ef við hefðum verið tilbúin að gefa okkur betri tíma, jafnvel nokkra daga eða vikur til að senda drög upp á 121 blaðsíðu fram og til baka, staðið fastar í lappirnar og reynt að nýta öll þau tæki og tól sem hefur verið bent á að við hefðum átt að hafa. Þá hefðum við hugsanlega verið með mun betra uppkast en við erum með.

Ég ætla að rifja aðeins upp það sem lá á bak við efnahagslegu fyrirvarana. Þegar farið var í skuldastöðu íslenska þjóðarbúsins má segja að allir þingmenn, hvort sem það voru stjórnarandstæðingar eða stjórnarliðar, hafi fengið í magann þegar við fórum að gera okkur grein fyrir því hversu slæm staða þjóðarbúsins raunverulega var. Ástæðan fyrir því er sú að í nóvember 2008 þegar verið var að taka ákvörðun um að taka lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tók sjóðurinn okkur út. Hann áætlaði þá að brúttóskuldsetning þjóðarbúsins væri um 160% af vergri landsframleiðslu árið 2009. Í úttektinni segir, með leyfi forseta:

„Erlendar skuldir verða enn geysimikill óvissuþáttur, ekki síst hvað gengið snertir. Frekara gengisfall um 30% ylli því að hlutfall skulda mundi snarhækka (og færi upp í 240% af vergri landsframleiðslu árið 2009) og yrði það vitaskuld ósjálfbært.“

Þarna verður hins vegar að hafa í huga skilgreininguna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á því hvað sjálfbærni skulda þýðir. Það byggist ekki á því að ríkið sé fært um að greiða niður höfuðstól skulda sinna ásamt vöxtum eins og margir hagfræðingar hafa bent á. Í raun og veru ná fæst ríki að borga niður skuldir sínar heldur lækkar prósentan vegna þess að landsframleiðslan eykst. Hlutfallið lækkar og þannig verður skuldastaðan sjálfbærari þannig að þegar þeir tala um sjálfbærni eiga þeir við hvort landið sé fært um að greiða vexti og tryggja að höfuðstóllinn hækki ekki til lengri tíma litið.

Í sumar var staðfest af Seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að umfang erlendra skulda væri mjög vanmetið og í þessu minnihlutaáliti sem ég vitnaði í var talið að erlendar skuldir þjóðarbúsins stefndu í að fara talsvert yfir 200% af vergri landsframleiðslu á næsta ári eða allt að 200–250%. Þegar skýrslan kom loksins fram eftir fyrstu endurskoðun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kom í ljós að skuldastaðan var 310%. Að vísu skilst mér að hún hafi snarhækkað úr þessum 240% sem menn höfðu áhyggjur af í sumar, upp í 310% vegna þess að eitt ákveðið fyrirtæki hafði ekki upplýst stjórnvöld um nákvæmlega skuldir sínar. Þetta var alla vega nægilegt til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem við vorum mörg mjög ósátt við, sá fram á að miðað við þetta væri engin leið til að Ísland gæti staðið undir þessum skuldum, það gæti ekki staðið undir þeim kröfum sem Bretar og Hollendingar gerðu þá á íslenska ríkið og ekki heldur þeim lánstilboðum sem hin Norðurlöndin buðu okkur. Talað var við fulltrúa þessara landa. Lánasamningarnir urðu ívið hagstæðari og var unnið í gjaldeyrishöftunum, það var farið í niðurskurð á ríkisútgjöldum strax á þessu ári og síðan var viðskiptajöfnun hagstæðari en áður var gert ráð fyrir. Hins vegar er algerlega ljóst að skuldsetning þjóðarbúsins erlendis er komin langt umfram það sem er hjá skuldugustu þjóðum heims.

Frú forseti. Ég er búin með tíma minn og væri áhugavert ef ég hefði fengið að upplifa það að geta talað í fleiri klukkutíma eins og hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra fengu að gera á sínum tíma, en ég verð því miður að fá að setja mig aftur á mælendaskrá til að halda áfram með mál mitt.