138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hans góðu ræðu sem ég er um margt sammála. Ég er sammála því sem þingmaðurinn sagði um að ekkert lægi á, það væri ekki búið að færa sannfærandi rök fyrir því — og gerðist ekki í máli hæstv. fjármálaráðherra í gær — að ekki væri hægt að taka málið inn í nefnd, skoða betur þau atriði sem þingmaðurinn fór vel yfir að væru enn þá útafstandandi og við höfum ekki fengið svör við. Í ljósi þess hvernig umræðu þetta mál hefur fengið í þinginu, fyrst í sumar þar sem okkur tókst með þverpólitískri samvinnu að gera breytingar á því, langar mig að biðja þingmanninn að bera saman þá tilfinningu sem hann hefur fyrir þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð þá og svo því verklagi sem var komið á í haust eftir að nýja frumvarpið kom fram. Þá talaði hæstv. fjármálaráðherra úr þessum stól um að þetta mál væri komið í skýran og endanlegan búning. Ég er því ósammála og ber enn þá von í brjósti að við getum gert breytingar á þessu frumvarpi og vil að það verði gert í nefndinni. Þó er ég farin að efast um það miðað við hvernig þessi umræða hefur farið fram og miðað við þátttöku eða þátttökuleysi stjórnarliða. Mér finnst ekki vera mikill samstarfsvilji og kannski líta menn þannig á að þetta sé komið í það skýran og endanlegan búning af ýmsum ástæðum.

Ég vildi fá viðhorf hv. þingmanns til þessa. Segjum að þessari umræðu mundi ljúka fljótlega og málið færi inn í nefnd, telur þingmaðurinn að það væri einhver von til að breyta þessu ömurlega máli?