138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir að koma upp og ræða þetta mál. Það er nýtt í málinu því að það hefur ekki gerst svo oft. En ég ætla ekki að fara að hártoga starfstitla fólks og hann dró svo sem í land með það að fara að gera lítið úr dýralæknum. Ég held að við ættum ekki að fara út í það hvort jarðfræðingar, skipstjórar eða hásetar séu betur eða verr til þess fallnir að fjalla um einstök mál. Ég held að þar muni karakter hvers og eins vera lykilatriðið og síðan þekking og greind viðkomandi og hvað hann er duglegur að kynna sér hluti.

Hv. þingmaður taldi að í máli mínu hefði ekki neitt nýtt komið fram. Mér vitanlega er hann þá ósammála hæstv. utanríkisráðherra sem sagði í andsvari við ræðu mína í gær að þetta mál varðandi vaxtaójafnræðið hefði komið upp eftir að fjárlaganefnd lauk störfum og sjálfsagt væri að taka það upp. Hann deilir þá ekki skoðunum hæstv. utanríkisráðherra á því að þess þurfi en ég tel að svo sé. Hv. þingmaður nefndi að upphæðin væri mjög skýr sem ég tel reyndar ekki vera.

Ef hv. þingmaður er að tala um að það séu þessir 750 milljarðar held ég að hann þurfi að koma upp í ræðustól og útskýra það fyrir þjóðinni að hún eigi að borga 750 milljarða, ef það er skýrt. Ef hann á við að það sé heildarupphæðin sem hugsanlega geti lækkað ef heimtur eigna Landsbankans verða með einhverjum öðrum hætti þá held ég reyndar að á þessari 750 milljarða tölu gæti verið plús eða mínus upp á svo sem 300–400 milljarða. Það eru stjarnfræðilegar upphæðir í samanburði við þann niðurskurð og þá skatta sem við erum að fara út í og er niðurskurðurinn þó nægur og upphæðir skattanna gífurlega háar. Ég held því að það sé þess virði, hv. þingmaður, að fara yfir þetta mál í nefndum þingsins til að ná betri samstöðu og ná betur utan um málið.