138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er það fráleitt, algjörlega fráleitt að þingið skuli nú, meira en ári eftir að þetta mál kom upp, ekki enn vera búið að leita eftir áliti óháðra aðila á greiðslugetu ríkisins og hvort hægt sé að standa undir þessu yfir höfuð. Því var haldið fram á sínum tíma þegar málið var tekið fyrir í fyrra skiptið að ekki væri tími til. Síðan eru liðnar vikur og mánuðir. Sá tími hefur þrátt fyrir ítrekaða beiðni stjórnarandstöðunnar ekki verið nýttur til að fá óháða aðila til að fara yfir málið. Ég held að einmitt veiti ekki af því að fenginn verði óháður erlendur aðili því að við höfum séð að þegar Íslendingar, og þeir eru margir, hafa haft fyrir því að reyna að benda ríkisstjórninni á vankantana á málatilbúnaði hennar er ráðist á viðkomandi aðila, oft og tíðum persónulega. Ráðherrarnir ráðast þá gegn viðkomandi með níði, dylgjum og útúrsnúningum svoleiðis að ég held að það veiti ekki af því að við fáum virtan erlendan óháðan aðila til að fara yfir þetta fyrir okkur.