138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér enn Icesave-frumvarpið svokallaða og full ástæða til enda er hér á ferðinni eitt stærsta mál Íslandssögunnar og eðlilegt að við sem hér erum og höfum verið kjörin af þjóðinni á þing höfum skoðanir á málinu og útskýrum fyrir umbjóðendum okkar og íslensku þjóðinni afstöðu okkar til þess. Því harma ég það enn og aftur, frú forseti, að fulltrúar stjórnarliða hafa vart séð sér fært að koma í þennan stól og rökstyðja mál sitt en hafa þess í stað komið og nýtt sér þann lið sem heitir fundarstjórn forseta til að koma með einhvers konar einnar mínútu sýndarrökstuðning fyrir því hvað þau hafa hér til málanna að leggja. Vil ég enn og aftur hvetja stjórnarliða til að koma hér í ræðustólinn þótt ekki væri nema til þess að hér í þingtíðindum lægi fyrir hvaða afstöðu þeir hafa í málinu og hvernig þeir rökstyðja hana.

Frú forseti. Það er auðveldara um að tala en í að komast að stjórna íslenska ríkinu akkúrat í dag. Við vitum öll að hér er mikil efnahagslægð. Bankarnir okkar hrundu og ekki er sanngjarnt að standa hér og gagnrýna eingöngu það sem fram fer heldur, eins og bent hefur verið á, er mjög mikilvægt að við sem hér störfum reynum að leita sameiginlegra lausna og benda á þær leiðir sem við teljum betra að fara en þá sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í þessu máli.

Allir þekkja forsöguna, við þingmenn vorum lengi á sumarþingi til þess að reyna að vinna að þessu máli. Ríkisstjórnin lagði fram frumvarp sem þingið sagði nei við að því leyti að það fór ekki óbreytt í gegn. Í rauninni var því breytt það mikið að segja má að ekki hafi mikið verið eftir af þeim málflutningi sem ríkisstjórnin lagði fram til að byrja með og átti að keyra í gegn á sumarþingi án þess að við sem sitjum á þingi fengjum að sjá samningana. Í raun var svo komið, frú forseti, að svo virtist sem a.m.k. annar stjórnarflokkurinn hefði ákveðið að styðja málið án þess að hafa séð samningana og er það miður. Þeim vinnubrögðum var hafnað og í staðinn voru hinir svokölluðu fyrirvarar smíðaðir og þeir fóru í gegnum þingið.

Hvernig var svo unnið með þau lög sem samþykkt voru í sumar veldur vissulega vonbrigðum. Það sem út úr þeirri vinnu kom er frumvarpið sem við ræðum í dag. Það er vissulega erfitt að sjá, frú forseti, hvernig þeir sem styðja þetta mál og stóðu hér í þessum stól að afloknu hinu langa sumarþingi og fögnuðu þeirri vinnu sem þingið hafði farið í, rökstyðja að þeir styðji þetta mál þegar fyrirvörunum virðist öllum kastað á glæ. Það væri fróðlegt, frú forseti, að heyra þann rökstuðning.

Frú forseti. Fjármálaráðherra hefur komið hér upp og sakað okkur í stjórnarandstöðunni um að hafa engar leiðir og engar lausnir í huga, að hafa lítið til málanna að leggja annað en gagnrýni. Ég hef þess vegna, frú forseti, leitast við að fara í andsvör við þá þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hafa kosið að taka til máls og spurt þá út í þær leiðir og lausnir sem þeir hafi í huga í málinu. Ég verð að segja, frú forseti, að ég hef fengið svör við öllum mínum spurningum. Ég hef fengið svör frá þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna og menn hafa vissulega sýn á það hvað eigi að gera. Ég mæli með því, frú forseti, að ríkisstjórnin og þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hafa áhuga á að fylgjast með þessum umræðum lesi einfaldlega og hlusti á þær ræður sem hér hafa verið fluttar varðandi þetta mál og reyni að koma sér inn í þau vinnubrögð og þann hugsunarhátt sem stjórnarandstaðan hefur uppi í þessu máli vegna þess að við sem hér sitjum berum mikla ábyrgð gagnvart framtíðinni. Það er ekki rétt þegar við finnum þá miklu andstöðu sem bæði ríkir hér inni á þingi og eins úti í samfélaginu gagnvart þessu frumvarpi að ætlunin sé að keyra þetta hér í gegn. Það tel ég ekki vera forsvaranleg vinnubrögð.

Það hefur m.a.s. verið talað um það í dag að á þingi séu 27 nýir þingmenn sem tóku sæti eftir kosningar sem boðað var til við mjög sérstakar aðstæður. Kallað var eftir því hér í dag að þessir 27 þingmenn hefðu skoðun á því hver vinnubrögð Alþingis væru. Ég veit ekki betur, frú forseti, en að við höfum einmitt á sumarþingi tekið upp ný vinnubrögð að ákveðnu marki við smíði fyrirvaralaganna og þess vegna spyr ég enn og aftur: Af hverju gagnrýna þeir sem gagnrýna það að nýir þingmenn hafi ekki skoðun á því vinnulagi sem hér er að við tölum um þetta mál og vilja heldur að það sé keyrt í gegnum þingið? Ég spyr, frú forseti, vegna þess að fyrirvörunum sem smíðaðir voru í sumar hefur verið kastað á glæ og ég sé þeirra ekki stað í þessu frumvarpi.

Hvað skal gera, frú forseti? Ég tel rétt að skoðað verði að nýju hvort Bretar og Hollendingar ætli virkilega að láta okkur standa við nauðasamninga af þessu tagi. Ég tel að við hér á þingi eigum að hafna því. Ég tel að við höfum í sumar smíðað fyrirvarana og sagt: Þetta er eins langt og við, íslensk þjóð, getum gengið. Ég tel að það höfum við gert á þingi í sumar. Þess vegna skil ég ekki af hverju ríkisstjórnin segir nú að við getum gengið enn lengra í því að skuldsetja íslensku þjóðina. Ég skil ekki hvar viðsnúningurinn varð og með hvaða rökum. Þess vegna tel ég, frú forseti, að við þurfum að senda skýr skilaboð frá þinginu út í heim. Það hefur því miður ekki verið gert á nægilega skýran hátt. Ég tel að við þurfum að koma þeim skilaboðum á framfæri að við hörmum það að regluverk og stofnanaverkið hér á Íslandi hafi ekki náð að grípa inn í og taka á þeim vanda sem skapaðist þegar bankarnir hrundu. Ég tel að við þurfum að senda þau skilaboð að við hörmum það. Við hörmum það að sparifjáreigendur bæði í Bretlandi og Hollandi og hér á Íslandi hafi lent í vandræðum af þeim sökum. Ég tel að við verðum að senda þau skilaboð og ég harma það.

Afleiðingar þessarar alþjóðlegu bankakreppu hér á Íslandi eru geigvænlegri en víðast hvar annars staðar. Sams konar vandi hefur þó leitt bankakerfi margra annarra landa í miklar ógöngur. Hér á Íslandi giltu sömu reglur og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu og starfsemi íslensku bankanna var dreifð um alla Evrópu. Ég tel að við þurfum einfaldlega að koma þeim skilaboðum út í heim að við hörmum það að hafa innleitt þetta evrópska regluverk óbreytt og án alls tillits til sérstöðu íslenska bankakerfisins sem fólst í stærð þess í samanburði við landsframleiðslu. Vissulega hefðum við eflaust fengið athugasemdir frá Evrópusambandinu hefðum við gert breytingar á því regluverki sem okkur bar að innleiða en engu að síður tel ég að við ættum að koma þessum skilaboðum á framfæri vegna þess að hér er um samevrópskan vanda að ræða og í anda evrópskar samvinnu er eðlilegt að vandinn sé leystur á samevrópskum vettvangi þar sem hann á rætur sínar í samevrópskri löggjöf.

Við getum ekki lagt það á venjulega íbúa, launþega og skattgreiðendur þessa lands, að bera þessar byrðar. Ég tel að ef við útskýrum mál okkar fyrir samstarfsmönnum okkar og samstarfsþjóðum til langs tíma í Evrópu komi þau til með að skilja sjónarmið okkar. Ég er þess fullviss að þau skilji sjónarmið okkar ef við höldum þannig á málum að við séum með á borðinu skynsamlegar lausnir og sáttavilja. Ég tel að við hér inni séum öll sammála um þetta atriði.

Lagaleg óvissa er uppi um hvort það að ganga að þessum nauðasamningum sé raunveruleg skylda okkar og það er óþolandi, frú forseti. Það er óþolandi að ætlast til þess að við hér á þingi samþykkjum að gangast undir þessar skuldbindingar á þennan hátt þegar við lögðum fram í sumar þá ýtrustu leið sem við töldum að hægt væri að gangast við af hálfu Íslands. Ég skil ekki hvers vegna menn hafa umturnast í þessu máli. Ég vil hvetja, frú forseti, þá hugrökku þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu sem settust hér saman í sumar til þess að semja fyrirvarana, til að einbeita sér að þessu verkefni, setjast saman að borðinu og koma viti fyrir ríkisstjórnina. Ég tel að það sé hlutverk okkar.

Ég vil enn og aftur hvetja þingmenn til þess að gera þetta og jafnframt að koma fram með þá beiðni, sem hefur reyndar verið margítrekuð úr þessum stól, að þessu máli verði frestað á meðan farið verði í þá vinnu. Vissulega hefur því verið hótað og fullyrt að þetta mál megi ekki bíða afgreiðslu úr þinginu. En, frú forseti, ég hef einfaldlega heyrt það áður. Hversu oft heyrðum við það ekki í sumar að ekkert þýddi að semja þessa fyrirvara vegna þess að allt yrði hér í kaldakoli daginn eftir ef samningarnir færu ekki í gegnum þingið strax? Nú hefur hæstv. forsætisráðherra spáð hörðum frostavetri (Forseti hringir.) fari þetta ekki í gegn. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég hef ekki náð að fara yfir öll atriði þessa máls og óska eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.