138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir innlegg hans og treysti því að hann fylgi þessu eftir. Ég bið hann formlega um það hér og nú að fylgja þessu eftir í fjárlaganefnd þar sem hann situr þannig að einhver sjái til þess að þetta fari þarna inn. Ekki virðist ríkisstjórnin vilja hlusta á þetta. Náttúrlega eru stjórnarliðar ekki viðstaddir til að hlusta á þessi mál sem er mjög alvarlegur hlutur.

Það sem ég meina fyrst og fremst er að orðalagið er svo loðið eins og ég hef bent á og samningsaðilar staðfesta. Það er ekkert afgerandi sem dómstólar geta tekið þarna til því að þó að samningsaðilar staðfesti þetta opnar grein 2.1.3 á það ákvæði að þetta sé fullnustuhæft. Vissulega eru rökin þau að hættan er, akkúrat eins og þingmaðurinn benti á, að um samninginn gilda bresk lög. Út af því ætla ég að benda á að það eru til bresk lög frá 1978 sem ganga út á að þjóðir falli frá friðhelgisréttindum sínum og eftir þeim lögum munu breskir dómstólar dæma fari þessi samningur í ágreining. Það er hættan í þessu sem ekki nokkur maður virðist átta sig á. Ákvæði í þessum lögum segir að hafi þjóð skrifað undir afsal á friðhelgisréttindum, eins og ríkisstjórn er svo sannarlega búin að gera í þessu frumvarpi, falli það þannig. Svoleiðis er það.

Í sambandi við sérfræðinginn. Við framsóknarmenn töluðum um það dag eftir dag í sumar að fá sérfræðing í enskum lögum fyrir fjárlaganefnd og fá ráðgjafa. Það var ekki hlustað á það frekar en önnur rök sem þessi góða stjórnarandstaða (Forseti hringir.) hefur haft fram að færa í þessu máli.