138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það enda hef ég fjallað um þetta í mínum fyrri ræðum og harmað mjög að við skyldum standa svona að málum. Við erum búin að gera mistök í þessu máli frá upphafi að mínu mati, alveg frá fyrsta degi. Við verðum líka að átta okkur á því við hvaða aðstæður við erum að glíma við þetta mál. Við föllum dálítið í þá gryfju, bæði stjórn og stjórnarandstæðingar, að átta okkur ekki á því mikla álagi sem er á stjórnsýslunni í landinu. Síðan býr hæstv. ríkisstjórn náttúrlega til aukaálag með því að fara í eitthvert Evrópusambandsgutl og þar fram eftir götunum. Það er eins og ekki sé nóg af verkefnum.

Auðvitað hefur það verið ákveðinn akkillesarhæll á þessu máli að menn skyldu ekki taka mun fastar á því. Það hefði verið mjög skynsamlegt í upphafi að skipa þverpólitískan hóp til þess að fara yfir það og láta þaulreyndan samningamann leiða þá vinnu. Það dapurlega við þetta er að við erum búin að gera þessi mistök þrisvar en samt höfum við aldrei lært af þeim. Það er nú einu sinni þannig að ef maður gerir mistök en vill ekki viðurkenna þau lærir maður aldrei af þeim. Það hefði verið mikið skynsamlegra fyrir alla að fara þá leið eins og þegar við samþykktum fyrirvaraleiðina, það var ákveðinn tímapunktur núna í sumar eða í byrjun hausts. Í mínum huga er alveg ljóst að svona milliríkjadeila leysist aldrei öðruvísi en að forustumenn þjóðanna setjist niður, hugsanlega með þriðja aðila, til þess að reyna að leysa málin. En að senda bréf með einhverjum bréfdúfum og bíða í margar vikur eftir svari, hvers konar vitleysa er þetta eiginlega? Það segir sig algjörlega sjálft. Þetta er ein alvarlegasta deila sem íslensk þjóð hefur lent í og ég skil ekkert í fólki sem heldur að það sé hægt að leysa hana öðruvísi en að forustumenn þessara ríkja setjist niður og ræði saman.