138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Í dag er 5. desember og við höfum beðið lengi eftir því að sjá þá stefnu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa mótað sér í skattamálum, 5. desember og nokkrir dagar til áramóta og stjórnarflokkarnir leggja fram gríðarlegar breytingar í grundvallaratriðum á skattkerfinu. Þetta vinnulag er einfaldlega óþolandi. Það eru ekki bara við í minni hlutanum á þingi sem gagnrýnum ríkisstjórnina fyrir þetta sleifarlag heldur m.a. aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusamband Íslands hefur t.d. gagnrýnt þessi fyrirhuguðu áform stjórnvalda mjög harkalega og gagnrýnt það samráðsleysi sem einkennir þetta mál og öll önnur sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir þessi missirin og er það miður.

Hér er verið að tala um að leggja um 50 milljarða kr. á heimilin og fyrirtækin í landinu á næsta ári. Við höfum verið gagnrýnd dálítið, minni hlutinn, fyrir mikla umræðu um Icesave-samningana svokölluðu en í því samhengi má benda á að árlegir vextir af Icesave-samningunum eru hátt í þessi upphæð eða rúmir 40 milljarðar kr. og því er eðlilegt að það mál sé rætt í þaula og allt skoðað í því samhengi því að umfang þess máls er þvílíkt.

Hverfa á frá núgildandi skattkerfi og taka upp fjölþrepakerfi sem mun flækja skattframkvæmdina verulega og leiða til aukins kostnaðar. Svo ég vitni bara í kostnaðarumsögn með frumvarpinu þá stendur þar, með leyfi forseta:

„Reiknað er með að gera þurfi breytingar á tölvukerfum skattkerfisins, auk auglýsinga- og kynningarefnis. Áætlanir gera ráð fyrir að kostnaðarauki vegna þessa gæti orðið á bilinu 90–100 millj. kr. Til viðbótar má, þegar frá líður, gera ráð fyrir að auka þurfi skatteftirlit vegna flóknara skattkerfis. Þessi kostnaðarliður hefur ekki verið metinn til fulls en fyrstu áætlanir gera ráð fyrir allt að sjö stöðugildum.“

Hér er verið að leggja til grundvallarbreytingar á skattkerfinu í mikilli tímaþröng og ég hefði haldið, í ljósi sögunnar síðasta árið hvernig Alþingi hefur starfað, að við ættum að fara að temja okkur ný vinnubrögð í þeim efnum. Knýja á fram í miklum flýti grundvallarbreytingar á skattkerfinu. Efnahags- og skattanefnd mun ekki hafa mikinn tíma til að fara yfir þetta umfangsmikla mál ef marka má starfsáætlun þingsins. Það er eðlilegt að við spyrjum að því, og ég spurði hæstv. ráðherra að því áðan, hann svaraði reyndar ekki þeirri fyrirspurn, hvort ríkisstjórnin hefði ekki skoðað það að hægt væri að ná svipuðum árangri með því að hækka tekjuskattsprósentuna og hækka skattleysismörkin jafnframt og ná þannig svipuðum árangri, svipaðri stefnu og hér er lagt til, og vinna þá með betri hætti að þeirri grundvallarbreytingu sem hér er lögð til. Þetta eru náttúrlega engin vinnubrögð, og þegar Alþýðusamband Íslands, sem eru samtök 120 þúsund launamanna hér á landi, er farið að gagnrýna þetta samráðsleysi allharkalega, að við tölum ekki um okkur í stjórnarandstöðunni, verður ríkisstjórnin að fara að hugsa sinn gang. Ég spyr enn og aftur: Er búið að undirbyggja þessar breytingar með nægilega vel? Við skulum ekki gleyma því að 90% Íslendinga þurfa einungis að ýta á enter-takkann á tölvunni til að skila inn skattframtali sínu. Hvaða áhrif mun þetta hafa á það ágæta fyrirkomulag sem verið hefur, þ.e. skattalegu framkvæmdina? Hafa stjórnvöld undirbúið þetta nægilega vel? Það er ósköp eðlilegt að við spyrjum að því vegna þess að þetta mál er lagt fram í miklum flýti og mér sýnist að það hafi ekki verið undirbúið nægilega vel.

Ég spyr hæstv. ráðherra aftur í ljósi þess að staða heimilanna er mjög slæm, verið er að leggja á ýmis gjöld sem leiða til hækkunar á verðlagsvísitölu, sem leiða til þess að skuldir íslenskra heimila munu á næsta ári hækka um tugi milljarða króna: Hefur verið gerð einhver úttekt á því hvert greiðsluþol heimilanna er? Það er gríðarlega erfið staða hjá mörgum heimilum í dag og því er eðlilegt að við spyrjum, í ljósi þeirra breytinga sem hér eru lagðar til, 50 milljarðar í auknar álögur á heimilin og fyrirtækin í landinu, sem mörg hver og flest standa mjög illa, hvort þetta séu raunhæfar leiðir. Að sjálfsögðu er verkefnið erfitt, og hæstv. ríkisstjórn á alla mína samúð í þeim efnum, og við gerum okkur grein fyrir því, framsóknarmenn, að það þarf að fjalla um þessi mál af ábyrgð og að sjálfsögðu þurfum við að auka tekjustofna ríkisins og við útilokum að sjálfsögðu ekki skattahækkanir í þeim efnum, en það verður að vera einhver skynsemi í þessu. Við verðum að hafa fyrir framan okkur raunverulega útreikninga á heildarsamhenginu, þ.e. gagnvart heimilunum og gagnvart fyrirtækjunum og greiðsluþoli þeirra, því að ef fólk og fyrirtæki standa ekki undir þessu bitnar það óhjákvæmilega á hagsmunum ríkissjóðs, okkar allra, og getur mögulega leitt til þess að margir sjái sér farborða með því einfaldlega að yfirgefa landið og starfa á erlendri grundu, sem er raunveruleg hætta í dag.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra líka um þann eignarskatt sem hér er lagður til, eða auðlegðarskatt eins og ríkisstjórnin kallar hann, hvers vegna menn niðurlægja hjónabandið með þeim hætti sem þar er gert, þ.e. fólk sem á verulega fjármuni er skattlagt mun meira í hjónabandi en sem einstaklingar. Það er 90 millj. kr. frítekjumark hjá einstaklingum en einungis 120 millj. hjá hjónum. Samkvæmt því gæti borgað sig fyrir það sambúðarfólk, sem eru kannski eldri borgarar, að skilja, það getur munað 7,3 millj. kr. á ári, og hvers vegna menn gæti ekki samræmis í þessu og virði hjónabandið með þeim hætti að löggjöfin sé þannig að fólk gjaldi þess ekki að vera í sambúð og knýi ekki á að fólk skilji að skiptum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því þegar hann nefnir vísitöluhækkanir, m.a. út af hækkunum á virðisaukaskatti, olíu og bensíni, hvaða afleiðingar það hafi fyrir skuldug heimili. Erum við ekki að tala þar um tugi milljarða sem skuldir heimilanna muni aukast vegna þeirra framkvæmda? Hafa menn ekki lært af því að það er ekki endalaust hægt að hækka verðlagið í landinu sem hefur þau slæmu áhrif á stöðu heimilanna að skuldirnar hækka enn frekar og voru þær nægar fyrir? Hefur hæstv. ráðherra velt því fyrir sér að reyna að ráðast í einhverjar aðrar aðgerðir til að auka tekjur ríkissjóðs en þær sem fara beint út í verðlagið?

Frú forseti. Okkar þingmanna bíður mikil vinna — og ég sé að hv. formaður efnahags- og skattanefndar labbar hér fram hjá púltinu — í efnahags- og skattanefnd. Ég vara við því að við afgreiðum þetta mál í einhverjum andarteppustíl. Ég gagnrýni það harðlega hversu seint ríkisstjórnin kemur fram með þetta mál. Hér er verið að flækja framkvæmdina í skattkerfinu og auka kostnaðinn hjá hinu opinbera því samfara. Ég tel að þetta mál hefði þurft að vinna mun betur. Ég hefði sjálfur viljað fá að koma að því á fyrri stigum hver hugmyndafræðin er á bak við þetta. Alþýðusamband Íslands hefur líka kallað eftir því og aðrir aðilar á vinnumarkaði en það er í þessu máli eins og svo mörgum öðrum að ríkisstjórnin hlustar einfaldlega ekki. Það er ekki kallað eftir neinu samráði. Ég vil skoða það gaumgæfilega og tek undir og er mjög ánægður með það að hæstv. ráðherra sé að skoða það í reynd að skattleggja séreignarsparnaðinn, þannig að við fáum auknar tekjur því samfara. Um leið árétta ég það að við þurfum að standa vörð um íslenska lífeyrissjóðakerfið, ég tel að með því að horfa eingöngu til séreignarsparnaðarins stöndum við vörð um þá hugmyndafræði sem við höfum byggt upp á undangengnum árum, því að við eigum eitt besta lífeyrissjóðakerfi um víða veröld og það er það sem er ljósi punkturinn í öllum þeim erfiðleikum sem blasa við okkur í því árferði sem við búum nú við.

Hæstv. forseti. Það þarf hófsemd í þetta. Mér er til efs að 50 milljarðar á heimilin og fyrirtækin í formi aukinna skatta á næsta ári sé raunhæf leið og þess vegna þurfum við að skoða aðrar leiðir því samfara til að minnka það högg gagnvart atvinnulífinu og heimilunum í landinu, því að margir eiga mjög erfitt með að ná endum saman í dag. Og fyrir utan það eru það ekki ásættanleg vinnubrögð að ætla að breyta skattkerfi þjóðarinnar í grundvallaratriðum á nokkrum dögum í meðförum Alþingis. Þetta er mál sem hefði þurft mikla yfirlegu og mikla vinnu, við erum að breyta tugum greina sem snerta skattkerfið og geta haft viðamikil áhrif. Þetta er mjög vandasamt verkefni og þess vegna er eðlilegt að hæstv. ráðherra svari því hvort það væri ekki skynsamlegt að menn legðust yfir þetta mál þverpólitískt með aðilum vinnumarkaðarins og skoðuðu í þaula hvernig menn vildu sjá íslenska skattkerfið þróast á næstu árum. Ég útiloka að sjálfsögðu engar breytingar í því, en vinnulagið verður að vera í lagi, frú forseti. Við skattleggjum okkur ekki út úr þessari kreppu þó að við framsóknarmenn höfnum ekki skattahækkunum en það verður að vera einhver hófsemd í þessu og því miður sýnist mér að heimilin muni ekki ráða við allar þær auknu álögur sem hér eru boðaðar.

Að lokum vildi ég spyrja hæstv. ráðherra að því í ljósi þessarar grundvallarbreytingar á skattkerfinu. Hingað til hafa vinnuveitendur verið ábyrgir fyrir því að skila inn gögnum sem snerta staðgreiðslu hjá starfsmönnum, hvernig verður það í nýju þrepaskiptu kerfi ef einstaklingur vinnur hjá tveimur vinnuveitendum? Ég get ekki séð annað en að verið sé að færa ábyrgðina af vinnuveitandanum yfir til hins almenna launamanns gagnvart skattyfirvöldum vegna þessa forms sem þrepaskiptingin er, ég hef miklar áhyggjur af því — það þarf mikla kynningu gagnvart almenningi hvað þetta varðar — og að við séum að ganga fullrösklega fram í grundvallarbreytingum. Ég mælist því til þess að efnahags- og skattanefnd fái allan þann tíma sem hún þarf til að fara yfir þessi viðamiklu mál. Ég vona að ég fái ekki einhvern málþófsstimpil á mig þó að ég vilji að við förum ítarlega yfir þetta mál í nefnd vegna þess að við erum að tala hér um grundvallarmál, um það hvernig við viljum byggja upp íslenskt samfélag og hvernig við viljum skipta kjörunum í okkar samfélagi og það er kannski æskilegt að gera það á þessum punkti í kjölfar hrunsins.

Við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt og ég hafna síður en svo nýjum hugmyndum en við verðum að fara að stunda þau vinnubrögð í þinginu að okkur sé sómi að og ég trúi því varla að framkvæmdarvaldið ætli að reyna að bola í gegnum þingið öllum þessum breytingum á skattkerfinu í mikilli tímaþröng rétt fyrir jól þegar við eigum eftir að afgreiða fjárlögin og Icesave-samkomulagið. En ég vonast til og veit að samvinnan í efnahags- og skattanefnd verður góð eins og fyrri daginn en því miður er ég hræddur um að framkvæmdarvaldið muni af öllum sínum þunga reyna að þrýsta þessum málum eins fljótt í gegnum þingið og hægt er. Við þekkjum hvernig það hefur gert sig á síðustu mánuðum, mörg mistök hafa verið gerð í lagasetningu á Alþingi Íslendinga og það er einkum vegna þess að þau frumvörp sem við höfum rætt og gert að lögum hafa verið unnin í mikilli tímaþröng og undir mikilli pressu af hálfu framkvæmdarvaldsins. Við verðum að fara að ástunda það hér að bera virðingu fyrir þingræðinu og að Alþingi Íslendinga geti rækt hlutverk sitt með sóma. Ég trúi ekki öðru, eins og ég hef sagt fyrr, en að efnahags- og skattanefnd fái allan þann tíma sem þarf til að fara yfir þetta viðamikla mál og ég trúi því vart að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands reyni að þröngva málinu í gegnum þingið á nokkrum dögum rétt fyrir jól, því að eins og ég hef komið inn á erum við að tala um gríðarlega stórt mál að umfangi.